136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[19:15]
Horfa

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Hæstv. forseti. Hér hefur margt verið sagt um munnlega skýrslu forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ýmissa skýringa hefur verið leitað á ástandinu sem við stöndum nú frammi fyrir og bent hefur verið á margan sökudólginn.

Víst er að margur hefur farið óvarlega í fjárfestingum á undanförnum árum og ég dreg enga dul á það að ég tel að ákveðnum blekkingum hafi verið beitt þegar sömu fyrirtækin skiptu margsinnis um hendur og hækkuðu um tugi og jafnvel hundruð prósenta án þess að nokkuð annað gerðist en að eigendaskipti urðu. Þetta minnti vissulega á verðlagninguna sem varð þegar netbólufyrirtækin voru og hétu á sínum tíma í kringum árið 2000, bóla sem sprakk. Þrátt fyrir þetta megum við ekki gleyma því að margt var gott gert í kjölfar einkavæðingar bankanna. Það var líka farið í mjög góðar fjárfestingar, arðsamar fjárfestingar, fjárfestingar sem margar voru með þeim hætti að viðskiptalífið um heim allan var sammála um að vel hefði verið gert.

Umheimurinn varaði okkur líka við. Fulltrúar Danske bank voru duglegir að benda á stöðu íslenskra banka sem reyndar höfðu þá sérstöðu að fjárfesta ekki í hinum svokölluðu húsbréfavafningum sem voru framleiddir á færibandi í Bandaríkjunum. Ég verð þó að segja eins og er að mér finnst að sú gagnrýni hafi misst ákveðna vigt og vera nokkuð marklaus í ljósi þess að í dag kom fram — og sýnir það í rauninni ástandið í heiminum — að Danske bank tók að láni 170 milljarða danskra króna. Og hvaðan? Frá bandaríska seðlabankanum. Þetta eru 3.000 milljarðar íslenskra króna, herra forseti, þetta er þrisvar sinnum hærri upphæð en öll íslenska þjóðin var að biðja um að fá að láni til að styðja við íslenska bankakerfið og íslenska hagkerfið, þetta er þrisvar sinnum hærri upphæð.

Ég átti í nokkru orðaskaki við hv. þm. Helga Hjörvar þegar hann var að dásama Evrópusambandið. Ég spurði hann í ljósi þeirrar samheldni og samvinnu og þeirrar félagslegu og viðskiptalegu hugsunar sem er hjá Evrópusambandinu: Hvert mundir þú þá telja að Danir mundu leita ef þeir lentu í fjármálakrísu? Hann taldi einsýnt að þeir mundu leita til evrópska seðlabankans þó svo að hugsanlega mundu þeir fyrst leita til norrænna seðlabanka. En nei, Danir fóru í bandaríska seðlabankann.

Hvar skyldi nú sá ágæti maður Lars Christian hjá Danske bank vera núna? Hann hefði hugsanlega átt að athuga sinn eigin rann áður en hann fór að setja út á allt hér, og það er hægt að tala niður heilt bankakerfi, það er hægt að tala niður heila þjóð ef því er að skipta eins og var gert. Það var staðreynd að bankarnir okkar stóðu ekkert verr en aðrir bankar og betur en flestir þeirra, það er staðreynd. Því má ekki gleyma þegar verið er að tala niður það fólk sem þar var að verki.

Kaupþing, sem varð fyrir hryðjuverkaárás breskra stjórnvalda, var með stöðu sem þótti til fyrirmyndar í Evrópu. En menn þurftu að tala Ísland niður, menn höfðu svo rosalega miklar áhyggjur af Íslandi og svo er Danske bank einn og sér búinn að sækja um 3.000 milljarða frá bandaríska seðlabankanum. Þetta er ótrúlegt. Ég segi það að Danir og fleiri þjóðir sem sneru við okkur baki þegar við báðum um skitna 700 milljarða, liggur mér við að segja í þessum samanburði, ættu að skammast sín. Með því að beita hryðjuverkalöggjöfinni á Íslendinga hafa Bretar fyrirgert öllum rétti sínum, við erum búin að gera upp við þá. Eignirnar sem þeir eyðilögðu eru búnar að borga fyrir Íslendinga.

Herra forseti. Við verðum að horfa fram veginn, þannig er staðan í dag. Það þýðir ekki endalaust að horfa í baksýnisspegilinn þó svo að ég detti í það far eins og hver annar. Spurningin er: Hvað er til ráða? Í mínum huga er ljóst að m.a. verður að fara í framkvæmdir. Mjög ítarlega hefur verið farið yfir ýmis mál sem snúa að því í hvaða stöðu fjölskyldurnar eru, hvað beri að gera til að koma til móts við fjölskyldurnar, til móts við þá sem skulda háar upphæðir. Ég tek undir hvert einasta orð sem hér hefur verið sagt. En við þurfum að fá eitthvert fé til framkvæmda. Hvernig ætlum við að gera það? Hvernig ætlar ríkið að gera það? Hvernig ætla sveitarfélögin að gera það? Hér má ekki allt verða stopp, það er býsna einfaldur „keynesismi“ sem þarf að beita hér. Þær framkvæmdir þurfa að vera með þeim hætti að þær kalli ekki á aukin rekstrarútgjöld en skapi fólki vinnu sem að þeim kemur. Margar fjölskyldur í byggingariðnaði eiga um sárt að binda og margar fjölskyldur tengdar byggingariðnaði, fjölskyldur þeirra sem þjónusta byggingariðnaðinn, og svo hefur þetta sín margfeldisáhrif inn í bankakerfið o.fl.

Ég er alfarið á móti hækkun þjónustugjalda því að það mun ýta undir verðbólgu og vísitöluhækkanir. Í því samhengi er ég frekar tilbúinn til að skoða skattahækkanir. Sumir hafa talað um að lækka hæstu launin eins og t.d. hefur komið fram hjá fulltrúum Kópavogsbæjar. Það er gott og vel og ég er í sjálfu sér tilbúinn til að lækka launin mín og ekkert vandamál með það. En það er líka til önnur leið til að lækka launin þó að annað orð sé notað og það eru skattar. Mér er í sjálfu sér sama hvor leiðin er farin en við þurfum fjármagn til framkvæmda.

Við þurfum líka að gera allt til þess að laða að erlenda fjárfestingu og við eigum ekki að hika við að breyta löggjöf okkar á þann veg að hún sé ívilnandi og freistandi fyrir erlenda aðila til að koma hér inn. Neyðarlögin geta náð yfir slíkt. Við verðum líka, eins og margir hafa bent á, að skera fituna innan úr stjórnkerfinu, innan úr opinberum stofnunum. Þá er ég ekki að tala um uppsagnir heldur vitum við að margt er hægt að gera betur í rekstrinum þar inni.

Ég hef stundum spurt mig að því þegar maður er staddur á ráðstefnum erlendis hvort Íslendingar hefðu kannski ekki sloppið með helmingi færra fólk á einstaka ráðstefnur eða fundi. Við þurfum að líta í okkar eigin barm hér, stofnanir þurfa að líta í sinn eigin barm. Fyrirtækin eru á fullu að skera niður rekstur sinn og við þurfum að gera það líka. Við græðum hins vegar ekkert á því að fara í einhverjar uppsagnir, ekki nokkurn skapaðan hlut, það væri að hella bensíni á eldinn. (Gripið fram í: Varnarmálastofnun.) Já, hv. þingmaður, ég held að það megi taka til hendinni þar og ég get algjörlega tekið undir álit þeirra sem telja að við ættum ekkert að vera að kalla Bretana hingað í byrjun þar næsta mánaðar.

Herra forseti. Hér hefur byggst upp mikil þekking þrátt fyrir allt, mikill þekking í viðskiptum, mikil þekking í ferðaþjónustu, mikil þekking á öllum sviðum ef svo má segja. Sú þekking má ekki liggja í dvala. Hún er okkar nærtækasta auðlind og sú auðlind sem auðveldast er að virkja. Sú virkjun verður ekki tafin með umhverfismati.