136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[19:26]
Horfa

Ármann Kr. Ólafsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Kjartani Ólafssyni fyrir þessi orð. Ég vil undirstrika það að þegar kemur að umhverfismati er ég algjörlega fylgjandi því. Það er algjört grundvallaratriði, held ég, þegar kemur að framkvæmdum upp að ákveðnu stigi.

Það er líka grundvallaratriði, og mér er sagt að það sé alveg skýrt erlendis, að þegar settur er einhver tímarammi á umhverfismat ber að ljúka því á þeim tíma. Ef þú reynir að fá fyrirtæki inn til Íslands og ekki er vitað hvort umhverfismatið tekur hálft ár, heilt ár, þrjú ár eða sex ár þá vilja fyrirtækin ekki koma hingað. Það mun t.d. hafa verið ein meginástæðan fyrir því að REC, norska sólarorkufyrirtækið, kom ekki hingað. Þeim fannst þeir ekki geta fengið skýr svör um það hvenær umhverfismati yrði lokið.

Að auki verð ég að segja: Eftir því sem mér er sagt geta framkvæmdir hafist áður en umhverfismati lýkur, rannsóknarboranir eru nærtækt dæmi í okkar tilviki, þ.e. að umhverfismatinu þurfi ekki að vera lokið. Ég held að við ættum að horfa til annarra þjóða og virðist mér sem einkum sé horft til norrænna þjóða, sem við höfum gjarnan tekið okkur til fyrirmyndar. Ég held að það sé grundvallaratriði að jafnmikil skylda hvíli á þeim sem framkvæmir umhverfismatið að ljúka því rétt eins og á hinum sem biðja um það.