136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[19:45]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við erum að nálgast lokin á umræðu um skýrslu hæstv. forsætisráðherra um stöðuna í efnahagsmálum og um aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að okkar málum. Margir hafa tekið þátt í umræðunni sem þó hefur verið harla fálmkennd og að vissu leyti má segja að við höfum verið dæmd til þess að fálma okkur áfram því að svo margt er óljóst um forsendur þessarar umræðu.

Við vitum að miklar skuldbindingar eru að falla íslensku þjóðina, geigvænlegar lántökur. Hversu miklar þær eru vitum við ekki. Við vitum ekki heldur á hvaða forsendum íslensk stjórnvöld ætla að standa. Ég held að við séum öll sammála um að við viljum að Íslendingar standi við þjóðréttarlegar og lögbundnar skuldbindingar sem þeir hafa tekist á herðar, en hverjar eru þær? Á hvaða forsendum ætlum við að standa? Það vitum við ekki. Erum við að tala um 500 milljarða, 600 milljarða, 700 milljarða?

Síðan er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn að koma að okkar málum. Hann mun fara með það fyrir stjórn sína næstkomandi þriðjudag að heimila lánveitingu til Íslands upp á 2 milljarða dollara. Okkur er sagt að við þurfum að fjórfalda þá upphæð til að ná markmiðum okkar. Hver eru þau, hver eru þessi markmið? Hér er verið að tala um tæpa landsframleiðslu sem stjórnvöld segjast reiðubúin að skuldbinda okkur og næstu kynslóðir fram í tímann, fram í næstu ár. Af hverju 2 milljarða bandaríkjadala? Af hverju 8 milljarða bandaríkjadala? Veit einhver hvers vegna? Nei.

Hæstv. forseti. Muna menn eftir támjóu skónum? Muna menn eftir þykku botnunum? Ég óttast múghyggjuna, ég óttast tískuna. Ég óttast líka tískuna í hagfræðinni og í stjórnmálunum, sömu tísku og leiddi okkur út í fenið. Í gærkvöldi kom fulltrúi Merrill Lynch, bandarísks fjármálafyrirtækis, alþjóðlegs, og sagði að vaxtahækkun hjá íslenska Seðlabankanum væri góð. Þetta er talsmaður fulltrúa jöklabréfanna á Íslandi. Þetta er talsmaður fyrirtækis sem er ekki alveg komið á hliðina en var við það og er komið núna í samkrull með öðru fyrirtæki og er hagsmunaaðili á fjármálamarkaði. (Gripið fram í.) Ég spyr: Hvers vegna þurfum við 8 milljarða bandaríkjadala? Eigum við ekki að ræða það? Það hefur enginn rætt það. Það spyr enginn stóru grundvallarspurninganna vegna þess að menn eru tilbúnir að fara inn í nýju tískusveifluna, nýju támjóu skóna, þykkbotna sólana og halda bara áfram á rússíbananum lengra út í fenið.

Ég spyr: Gæti verið að við þyrftum ekki að taka öll þessi stóru lán? Gæti verið að við ættum að hugsa það aðeins betur hvort rétt sé að fara út í frjálst flæði í gjaldeyri? Gæti verið að við með okkar litla gjaldmiðil ættum að hafa meiri stjórn á honum, meiri handstýringu og skuldbinda íslensku þjóðina minna en fjármálasérfræðingar og hagsmunaaðilar á fjármálamarkaði leggja að okkur að gera? Ég hallast að því.