136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

hækkun stýrivaxta.

[10:34]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég tel nauðsynlegt að leggja nokkrar spurningar fyrir hæstv. forsætisráðherra í framhaldi af því sem gerðist í gær og varðar hækkun stýrivaxta og þá yfirlýsingu og þann pólitíska rökstuðning sem kom frá Seðlabankanum í gær. En samkvæmt viljayfirlýsingu sem Seðlabankinn hefur nú gert opinbera að hluta til þrátt fyrir að um trúnaðarmál sé að ræða — og er það kannski önnur spurningin til hæstv. forsætisráðherra, hvort hann telji að Seðlabankinn hafi brotið trúnað með því að senda frá sér þá yfirlýsingu sem kom fram í gær, ég ætla ekki að fara yfir hana, hæstv. forsætisráðherra hlýtur að hafa kynnt sér hana — en í stuttu máli kemur þar fram að sú ákvörðun sem tekin var um stýrivaxtahækkun upp á 6 prósentustig sé í raun ekki tekin af Seðlabankanum heldur af alþjóðlegri stofnun í samstarfi við ríkisstjórnina eins og þetta lítur út. Þá er náttúrlega stóra spurningin sú hvort Seðlabankinn sé ekki enn þá sjálfstæð stofnun sem tekur ákvörðun um stýrivaxtahækkanir eða lækkanir eftir því sem verða vill.

Ég spyr svo í framhaldinu hæstv. forsætisráðherra: Hefði þurft að breyta lögum um Seðlabankann á hv. Alþingi áður en sú ákvörðun var tekin að hækka stýrivextina? Ég spyr líka: Var hæstv. forsætisráðherra kunnugt um að stýrivaxtahækkunin færi fram á þessum degi þegar a.m.k. helmingurinn af ríkisstjórninni var í útlöndum ef ekki meira?