136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

hækkun stýrivaxta.

[10:37]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Það er sjálfsagt að útskýra þetta mál eina ferðina enn. Í viðræðum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem fulltrúar ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans tóku þátt í bæði á vettvangi sérfræðinga en einnig á vettvangi ráðherra og bankastjóra var gert bráðabirgðasamkomulag sem kynnt var síðastliðinn föstudag. Það samkomulag á eftir að leggja fyrir stjórn sjóðsins. Það gerist vonandi í næstu viku. Á meðan er ekki hægt að birta þetta samkomulag vegna þess að um slík mál gilda ákveðnar birtingarreglur innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem við verðum að lúta en við munum auðvitað birta þetta skjal um leið og það er hægt.

Samkomulagið er í mörgum liðum. Það er í grunninn byggt á yfirlýsingu eða bréfi frá okkur til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem verður síðan tekið til afgreiðslu. Við höfum auðvitað farið vandlega yfir þann texta með sendinefnd sjóðsins sem hér var í síðustu viku. Í þessu samkomulagi er gert ráð fyrir vissum sveigjanleika hvað varðar vaxtastig og ég man ekki betur en að hv. þingmaður og fyrirspyrjandi hér hafi verið í hópi þeirra þingmanna á Alþingi sem einna fyrstur kvað upp úr með það að leita ætti til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins vegna þessa máls. Það er gert ráð fyrir sveigjanleika í sambandi við vexti og það lá fyrir að í upphafi þyrfti að hækka vextina vegna þess að það vantaði viðspyrnu á gjaldeyrismarkaðnum til að koma fótunum undir íslensku krónuna til að ná niður með þeim hætti verðbólgunni sem er forsenda fyrir vaxtalækkunum í framhaldinu. Þannig var þetta og það lá fyrir að slík vaxtahækkun þyrfti að gerast áður en málið kæmi til afgreiðslu í stjórn sjóðsins. Seðlabankinn tekur hina formlegu ákvörðun um það. Hún var kynnt á þriðjudaginn. Þar með er sú tala að sjálfsögðu ekki lengur neitt leyndarmál, hún getur ekki verið það.