136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

norrænn markaður fyrir heilbrigðisþjónustu.

[10:41]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Á þriðjudaginn var, á Norðurlandaráðsþingi, talaði hæstv. forsætisráðherra Geir H. Haarde fyrir formennskuáætlun Íslands í norrænu ráðherranefndinni árið 2009. Þar vakti sérstaka athygli og viðbrögð einn ákveðinn þáttur í áætluninni sem bendir til þess að Íslendingar ætli að beita sér fyrir því á næsta ári að leggja áherslu á að opna markað fyrir heilbrigðisþjónustu á Norðurlöndunum og komi til með að greina frá því á árinu hvaða hindranir séu á því að slíkur markaður verði til og með hvaða hætti verði hægt að ryðja þeim hindrunum úr vegi.

Ég verð að segja, hæstv. forseti, að þessi þáttur í formennskuáætlun Íslands olli mér verulegum vonbrigðum. Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra: Er ekki komið nóg? Er þetta rétti tíminn til að gefa út yfirlýsingu um það að Íslendingar ætli að hafa forgöngu um að markaðsvæða heilbrigðisþjónustu á Norðurlöndunum? Er það nákvæmlega þetta sem við þurfum á að halda sem þjóð, hvort heldur út á við eða inn á við, að búa til samkeppni í framboði á heilbrigðisþjónustu? Ég segi að sjálfsögðu nei. Hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórnin öll er á verulegum villigötum í þessu máli og það var verulega niðurlægjandi þótti mér sem sat í salnum þegar viðbrögð komu frá þingmönnum á Norðurlandaráðsþinginu þar sem þau frábáðu sér þá vinnu sem nú væri í vændum undir formennsku Íslands og spurt var hvort Íslandi hefði stuðning ríkisstjórna hinna Norðurlandanna við þessi áform sín. Nú spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Er stuðningur hjá ríkisstjórnum Norðurlandanna við þessi áform og ætlar hæstv. forsætisráðherra virkilega að beita sér fyrir því að heilbrigðisþjónustan á Íslandi og öllum Norðurlöndunum verði markaðsvædd?