136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

staða Seðlabankans.

[10:52]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ekki ætla ég að gagnrýna trúmennskuna sem hæstv. forsætisráðherra hefur sýnt bankastjórn Seðlabankans. Ég tel þetta ekki dagana til að leita sökudólga á Íslandi en ef ofan á allt annað hafa tapast tugir milljarða eða 150 þúsund milljónir, hálf milljón fyrir hvert mannsbarn í landinu í viðskiptum bankans þá er óhjákvæmilegt að bankastjórnin axli ábyrgð. Ekki vegna þess að það þurfi að hengja sökudólga heldur vegna þess að þá blasir við að við þurfum að endurskipuleggja yfirstjórn bankans sem svona hrapallega hefur tekist til hjá. Ekki vegna þess að í henni séu vondir menn heldur vegna þess að okkur hefur mistekist og við stjórnum landinu og verðum að axla ábyrgð á mistökunum og endurskipuleggja þá starfsemi sem er á ábyrgð okkar.

Í ljósi þess að Alþingi kemur ekki bara að málinu heldur hefur fjárveitingavaldið og fjórir af fimm stjórnmálaflokkum hér á Alþingi hafa lýst skýrt þeirri stefnu að yfirstjórn Seðlabankans eigi að vera fagleg (Forseti hringir.) spyr ég hæstv. forsætisráðherra hvort þetta sé honum a.m.k. ekki efni til umhugsunar þegar við horfum á (Forseti hringir.) 150 milljarða króna.