136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

staða Seðlabankans.

[10:53]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég vil ítreka að endanleg tala liggur ekki fyrir í málinu, ég nefni þessa tölu til að fara eins nærri sannleikanum og ég get en hún gæti orðið önnur.

Þetta er til komið af ástæðum sem ég lýsti áðan. Þarna er ekki um það að ræða að bankinn hafi gert sig sekan um sérstök afglöp, bankinn reyndi að hjálpa bankakerfinu í landinu í gegnum kreppuna með lausafjárfyrirgreiðslu eins og allir aðrir seðlabankar hafa gert og lá undir ámæli fyrri part ársins fyrir að gera ekki nógu mikið í þeim efnum, sem sagt að hafa ekki komið sér upp frekari stabba af veðbréfum sem síðan hefur reynst lítil innstæða fyrir.

Við vitum ekki nákvæmlega hvað þessi veð eru mikils virði, verið er að reyna að geta sér til um það og vonandi kemst sem fyrst botn í málið.