136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

LÍN og námsmenn erlendis.

[10:55]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera stöðu námsmanna erlendis að umtalsefni hér. Nú liggur fyrir að margir þeirra eiga í miklum erfiðleikum í ljósi gengissveiflna og erfiðrar stöðu krónunnar. Fulltrúar Sambands íslenskra námsmanna erlendis komu á fund menntamálanefndar í gær ásamt fulltrúum stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna og menntamálaráðuneytis og viðruðu þar hugmyndir um hvort hægt væri að koma til móts við íslenska námsmenn erlendis. Þar hafa ýmsar hugmyndir verið nefndar, 500 þús. kr. sérstakt aukalán, neyðarlán sem kveðið er á um í reglum um lánasjóðinn, hækkun á yfirdrætti út frá meðaltalsgengi, vaxtastyrkur eða einhverjar slíkar viðbætur þannig að hægt sé að gera aðstæður námsmanna erlendis auðveldari í ástandinu sem hér gengur yfir. Við vitum að ástandið er erfitt fyrir alla hér á landi en námsmenn erlendis eru í sérstakri stöðu þar sem þeir hafa ekkert félagslegt net í kringum sig og eru einir á báti úti í heimi að eiga við þessar efnahagsþrengingar.

Mig langar að kanna það hjá ráðherra því formaður menntamálanefndar, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, tók mjög vel í að settur yrði á laggirnar einhvers konar aðgerðahópur undir stjórn ráðuneytis til að fara sérstaklega yfir ástandið núna og ljóst er að mánaðamótin sem nú eru verða námsmönnum erfið og líka þau næstu. Mig langar að kanna afstöðu ráðherra til þess og hvort hún muni beita sér sérstaklega í málinu því þetta er mál sem þarf að bregðast við núna. Ljóst er að hægt er að skoða námslánakerfið í heildarsamhengi og þar má gera ýmsar breytingar en ég kalla eftir því hvort gengið verði í einhverjar skammtímalausnir til að bregðast við ástandinu eins og það er núna.