136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa.

101. mál
[11:13]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Það er auðvitað gott að það skuli koma fram frumvarp um réttindi á frístundaskip sem og önnur skip. Það sem mér finnst kannski vanta í greinargerð með frumvarpinu og í frumvarpið sjálft er nánari skilgreining á því hver þau réttindi eru. Í dag þurfa íslenskir sjófarendur hvort sem þeir eru á fiskibátum eða skemmtibátum að vera með svokallað 30 tonna pungapróf og margar konur eru meira að segja með slíkt próf. Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um það hver munurinn á þessum nýju réttindum á frístundaskip og hinu svokallaða pungaprófi er. Í fyrsta lagi hefði ég haldið að gott væri að fá skýringu á því.