136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa.

101. mál
[11:19]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Ég taldi mig vera í andsvari áðan en það var misskilningur. Ég ætlaði að fá upplýsingar hjá hæstv. samgönguráðherra um muninn á svokölluðu pungaprófi og þessum réttindum sem þarf til að geta verið á frístundabát og stunda frístundaveiðar. Það vill nú þannig til að þessir frístundabátar eru innan um aðra báta, stóra og smáa, og þekking á siglingareglum og lögum verður að vera jafngóð þar og hjá öðrum. Það að slá af og vera með minna próf og minni þekkingu en í pungaprófinu gengur náttúrlega ekki upp.

Annað vandamál fylgir þessum bátum sem kom í ljós á síðasta sumri, þ.e. að þeir aðilar sem koma og stunda veiðar á þessum frístundabátum leigja veiðiheimildir í smábátakerfinu og hafa beinlínis tekið atvinnu af atvinnusjómönnum. Þeir hafa leigt veiðiheimildir á þessa báta. Þeir aðilar sem koma frá útlöndum og stunda mest veiðar á þessum bátum eru flestir útlendingar, þeir eru tilbúnir að borga svo og svo háar upphæðir fyrir að fá að veiða og síðan láta þeir fiskinn inn í frystihús, fiskverkanir eða jafnvel á fiskmarkað. Þetta kemur illa við sjómenn á smábátum sem eru í hinu svokallaða litla fiskveiðistjórnarkerfi, litla kerfinu. Þetta þarf að horfa á varðandi þessa frístundabáta. Af hverju og til hvers erum við að hafa þá inni í einhverjum kvótum. Ég hefði haldið, sérstaklega á meðan þessi atvinnugrein er að ná fótfestu, að hún ætti alls ekki frekar að vera kvótabundin en aðrar veiðar á Íslandi. Þær eiga ekki að vera í kvóta en það er annað mál og stærra.

Rétt er að leggja áherslu á að þessir frístundabátar tóku veiðiheimildir og hækkuðu leigu á leigumarkaðnum verulega síðasta sumar. Menn fengu ekki veiðiheimildir vegna þess að frístundabátarnir spáðu ekkert í afkomu, þeir borguðu fyrir að fá að vera þetta marga daga á veiðum og það skipti þá engu máli hvort kvótinn væri 200 kr. eða 250 kr., þeir leigðu hann samt. Það eina sem fyrirtækin sem gerðu út þessa frístundabáta lögðu áherslu á var að ná í kvóta, sama hvað hann kostaði. Á sama tíma urðu íslenskir atvinnumenn — íslenskir trillukarlar — að binda báta sína og gátu ekki farið á sjó út af því að þeir voru kvótalausir og gátu ekki keppt við þessa frístundabáta um kvótaleigu.

Ég spyr hæstv. samgönguráðherra aftur: Hver er munurinn á réttindum sem menn þurfa til frístundaveiða og þessu svokallaða pungaprófi? Það væri gaman og fróðlegt að fá að vita það. Síðan bendi ég á að það þarf auðvitað að taka þannig á þessari atvinnugrein að hún eyðileggi ekki möguleika atvinnumanna í smábátaútgerð.