136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa.

101. mál
[11:30]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get varla í stuttu andsvari farið yfir muninn á þessum prófum sem hann var að tala um en auðvitað er það svo að í grunninn er þetta allt saman mjög sambærilegt. Við skulum líka hafa í huga að þau skip sem verið er að nota í þessa frístundaveiðimennsku eru sérsmíðuð og miklu einfaldari en aðrir bátar. Þess vegna er talið að hægt sé, m.a. til að spara kostnað, að leggja til að viðkomandi fyrirtæki séu með ákveðin námskeið sem menn verða að fara í gegnum áður en þeir fá að fara út á sjó. Það er grundvallaratriði í þessu líka og þarf auðvitað að hafa það í huga. Við frekari útfærslu á þessu atriði kemur til kasta Siglingastofnunar að útbúa hvað skuli felast í þessu námskeiði eða hvað við viljum kalla það, hvað menn telja rétt að setja þar inn og ég treysti Siglingastofnun fullkomlega til að gera það. Ég ítreka það sem hér hefur komið fram, bæði hjá mér og öðrum þingmönnum, sem eru aðvörunarorð líka um það að þrátt fyrir að við ætlum ekki að gefa afslátt á öryggismálum, við ætlum að reyna að efla þau til að koma í veg fyrir slys, þá ætlum við heldur ekki að ganga það langt að setja óþarfa byrðar á þessi félög þannig að þessi starfsemi geti ekki þrifist hér á landi.