136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

rannsóknarstofnun um utanríkis- og öryggismál.

20. mál
[11:34]
Horfa

Flm. (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um rannsóknarstofnun um utanríkis- og öryggismál. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn Siv Friðleifsdóttir, Magnús Stefánsson, Birkir Jón Jónsson og Höskuldur Þórhallsson.

Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórn Íslands að setja á stofn rannsóknarstofnun um utanríkis- og öryggismál.“

Eins og allir þekkja hafa á undanförnum tveimur áratugum orðið miklar breytingar á alþjóðlegu umhverfi Íslands. Áhrif þeirra á Ísland eru óumdeilanleg, allt frá hruni Sovétríkjanna fram að brotthvarfi varnarliðsins, sem var ekkert smámál að varnarliðið skyldi allt í einu fara af landi brott með litlum fyrirvara en það er mál út af fyrir sig sem ég ætla ekki að verja tíma í að rifja upp hér. Fyrrverandi kommúnistaríki hafa mörg hver gerst aðilar að Evrópusambandinu og NATO. Þá hefur aðild Íslands að Schengen-svæðinu og sú staðreynd að Evrópa er að verulegu leyti án landamæra haft miklar breytingar í för með sér. Ég vil í tilefni af þessu bæta því við að ég tel að það hafi verið mikilvægt fyrir Ísland að nást skyldi samkomulag við Evrópusambandið um að Íslendingar gætu orðið aðilar að Schengen því að ef svo hefði ekki orðið hefði norræna vegabréfasvæðið í raun heyrt sögunni til og það hefði haft miklar afleiðingar og þýtt mikil óþægindi fyrir okkur Íslendinga.

Hröð bráðnun íss á heimskautasvæðum sem kann að valda hækkun sjávarborðs og gjörbreyta siglingaleiðum á norðurslóðum mun hafa veruleg áhrif á Íslandi. Í tengslum við það hefur vissulega verið unnið nokkuð af hálfu utanríkisþjónustunnar á Íslandi að því að reyna að átta sig á þeim breytingum sem verða við það að ísinn bráðnar og siglingaleiðir verða örugglega um þetta svæði og þá fram hjá Íslandi. Í því felast bæði ógnanir og tækifæri en við þurfum að sjálfsögðu að vera á varðbergi með að nýta okkur þau tækifæri sem af þessu skapast og ekki síst í sambandi við umskipun sem er augljóst að fara þarf fram einhvers staðar á þessu svæði. Við Íslendingar eigum því að mínu mati að leggja okkur fram við að sjá svo um að Ísland fái þarna þjónustuhlutverk. Unnin hefur verið skýrsla þar sem greind eru svæði sem líklegust eru til að koma þarna til greina og ætla ég ekki að hafa fleiri orð um það að sinni. Við verðum líka að gera okkur grein fyrir því að þessi þróun mun að öllum líkindum valda nýrri spennu í alþjóðamálum og hafa þannig bein áhrif á íslensk öryggis- og varnarmál.

Þá má nefna þróun mála í Asíu, einkum í Kína sem er á hraðri leið í átt að verða efnahagslegt stórveldi og trúi ég að þær breytingar sem nú eiga sér stað í heiminum með efnahagsþrengingunum muni ekki breyta því og það mun hafa gríðarleg áhrif í heiminum. Ég nefni líka þá viðleitni Rússlands að endurheimta fyrri áhrif í alþjóðamálum og efast ekki um að það muni hafa áhrif á þróun heimsmála almennt og ekki síst á þróun mála á því heimssvæði sem við búum. Þá mun mótun utanríkis- og varnarmálastefnu Bandaríkjanna í kjölfar þess að nýr forseti tekur við völdum í janúar næstkomandi hafa breytingar í för með sér í sambandi við alþjóðlegt samstarf og nefni ég bæði Atlantshafsbandalagið og Sameinuðu þjóðirnar í því sambandi. Ég gef mér að það verði breytingar hvor kandídatinn sem nær því að verða kjörinn forseti Bandaríkjanna en eins og mál standa í dag eru meiri líkur á að það verði demókratinn Obama. Eins og hv. þingmenn þekkja er hann einn vinstri sinnaðasti þingmaðurinn sem situr á Bandaríkjaþingi svo menn hljóta að eiga von á því að einhverjar breytingar verði í framhaldinu.

Vaxandi fólksflutningar milli landa, sérstaklega frá Norður-Afríku og Asíu til Evrópu og frá Austur-Evrópu til Vestur-Evrópu, eru mikil áskorun og hafa Norðurlöndin ekki farið varhluta af þeirri þróun. Ég nefni líka neikvæða fylgifiska alþjóðavæðingarinnar, svo sem mansal og smygl á fólki sem eru vaxandi vandamál. Alþjóðleg hryðjuverkastarfsemi er viðvarandi vandi sem ekki sér fyrir endann á. Hætta á útbreiðslu gereyðingavopna er einnig fyrir hendi og má í því sambandi minna á yfirstandandi deilu alþjóðasamfélagsins við Íran vegna áætlana Írans um auðgun úrans. Atlaga netþrjóta á tölvukerfi, í sumum tilfellum að áeggjan stjórnvalda ákveðinna ríkja, er ný ógn sem þjóðir heims standa frammi fyrir. Það er því eitt og annað sem tína má til sem rök fyrir því að halda því fram að margt sé að breytast í umheiminum og ekki síst hvað varðar Ísland og stöðu þess í hinu stóra samhengi.

Víða erlendis, þar með talið annars staðar á Norðurlöndunum, starfa rannsóknarstofnanir sem sérhæfa sig í alþjóðamálum og þróun þeirra. Við Háskóla Íslands starfar Alþjóðamálastofnun sem sett var á laggirnar árið 1990 og hefur hún unnið ágætt starf. Hún er hins vegar ekki rannsóknarstofnun eins og hér er gerð tillaga um. Vel má hugsa sér að sú stofnun sameinaðist rannsóknarstofnuninni sem hér um ræðir ef það þætti henta. Ég tek ekki afstöðu til þess hvort það er skynsamlegt og vonast til að þessi tillaga mín sé á engan hátt ögrun gagnvart því starfi sem þar fer fram.

Mikilvægt er að við uppbyggingu rannsóknarstofnunar um utanríkis- og öryggismál sé lögð áhersla á faglegt og stjórnunarlegt sjálfstæði. Þá er samstarf við alþjóðlegar stofnanir augljóslega mikilvægt.

Íslendingar búa yfir mikilli þekkingu á sviði utanríkis- og öryggismála. Þeirri þekkingu má koma á framfæri og nýta á skipulegan hátt með stofnun rannsóknarstofnunar um utanríkis- og öryggismál. Ég tel ekki nokkurn vafa á að það að hafa farið í gegnum framboðið til öryggisráðsins og allt það starf sem utanríkisþjónustan innti af hendi við að leggja sig fram um að hljóta kosningu sé m.a. ástæða þess að við höfum aldrei búið yfir eins mikilli þekkingu í utanríkis- og öryggismálum og einmitt nú. Kosningin fór eins og allir þekkja, við náðum ekki sæti og er í sjálfu sér hægt að hafa ýmis orð um það og ýmsar skoðanir á því hvers vegna svo fór en þetta er sú staðreynd sem liggur fyrir. Skoðun mín er sú að stofnun sem þessi gæti auk þess þjónað stuðningshlutverki við þann samstarfsvettvang stjórnmálaflokkanna sem boðaður var í yfirlýsingu þáverandi ríkisstjórnar í kjölfar samkomulags ríkisstjórna Íslands og Bandaríkjanna um varnarmál frá 26. september 2006.

Hæstv. forseti. Ég tel að þetta séu aðalatriðin sem hér hafa komið fram um þessa hugmynd sem er ekki óáþekk því sem við þekkjum frá öðrum Norðurlöndum. Ég geri mér grein fyrir að miðað við stöðu mála í dag og miðað við stöðu efnahagsmála, ríkisfjármála, séu ekki líkur á að af þessu verði og þessi tillaga verði samþykkt á yfirstandandi þingi en ég tel mikilvægt að hreyfa þessum málum og það geti hugsanlega og vonandi síðar orðið til þess að þessi hugmynd og tillaga geti orðið að veruleika.