136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum.

30. mál
[11:56]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég fagna þeirri tillögu til þingsályktunar sem hér er lögð fram og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hefur mælt fyrir. Það er reyndar í annað sinn sem tillagan er sett fram hér í þinginu. Hún var einnig sett fram á síðasta þingi og þá tjáði ég mig ásamt nokkrum fleiri þingmönnum um hana. Ég játa það þó að ég hefði gjarnan viljað heyra fleiri taka til máls og ekki síður karla en konur vegna þess að þetta er mál sem skiptir ekki bara konur máli heldur allt samfélagið. Það er rétt sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir kom inn á að Kvenréttindafélag Íslands hefur látið sig þetta mál miklu varða og hélt m.a. fund nýlega þar sem það var til umræðu. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir og ég vorum á þeim fundi. Það er rétt að það er ákveðinn hópur í samfélaginu sem hefur mikinn áhuga á jafnréttismálum og fylgist með því sem fram fer hér á Alþingi, hvaða mál eru lögð fram til þess að stuðla að jafnrétti. Þess vegna skiptir tillöguflutningur af þessu tagi afar miklu máli.

Mér finnst ég alltaf vera að segja sömu hlutina aftur og aftur og tala stundum fyrir daufum eyrum en í jafnréttismálum þarf alltaf að vera á vaktinni, því miður. Við sjáum það t.d. á þeim tölum sem fylgja með greinargerðinni með þingsályktunartillögunni að okkur miðar afar hægt. Það þarf alltaf að koma með hugmyndir um aðgerðir og setja málin á dagskrá til þess að ná einhverjum árangri.

Þar skipta mjög miklu máli þær aðferðir sem notaðar eru. Komið er inn á það í greinargerðinni með tillögunni að það þarf að vera vilji til þess innan stjórnmálaflokkanna að fjölga konum á framboðslistum og þar skipta fyrstu sætin mestu máli. Það er auðvitað kjarni málsins. Það er ekki nóg að vera bara með konur til jafns við karla á framboðslistum ef þær eru allar í þeim sætum sem ekki eru örugg og ekki miklar líkur á að þær komist inn sem fulltrúar. Þess vegna eru stjórnmálaflokkarnir sjálfir lykillinn að því að konur komist að.

Sá fundur sem ég nefndi áðan sem haldinn var á vegum Kvenréttindafélags Íslands fjallaði m.a. um aðferðir sem flokkarnir hafa notað til þess að velja fólk á lista. Þar hefur lenskan verið sú að margir flokkar hafa notað opin prófkjör en staðreyndin er sú, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr, að það er aðferðafræði sem hefur ekki gagnast konum sérstaklega vel. Það eru margar rannsóknir sem styðja það og margir fræðimenn hafa skoðað það mál. Margt hefur þar áhrif í prófkjörum: Kostnaður við prófkjör, afleiðingar fyrir flokkinn af því þegar slegist er um sæti og margt fleira. Ég held því að þegar til stykkisins kemur séu það stjórnmálaflokkarnir sjálfir sem skipta þar afar miklu máli.

Flokkur minn hefur sett sér ákveðna reglu um hlut kvenna á framboðslistum. Ég er reyndar þeirrar skoðunar sem formaður kvennahreyfingar Samfylkingarinnar að ég hefði viljað sjá minn flokk ganga lengra og taka af skarið varðandi það að sé karl í fyrsta sæti eigi kona að vera í öðru og svo framvegis. Sé kona í fyrsta sæti eigi karl að vera í öðru sæti og svo koll af kolli. Um það hefur m.a. kvennahreyfingin ályktað en auðvitað eru skiptar skoðanir um það. Ég held því að stjórnmálaflokkarnir sjálfir skipti afar miklu máli þarna.

Í umræðunni var einnig talað um fyrirmyndir. Þær skipta auðvitað mjög miklu máli hér. Við sem störfum á Alþingi erum fyrirmyndir. Fólk horfir til okkar, tekur eftir því hvað við segjum og gerum, bæði konur og karlar þannig að það sem við segjum skiptir máli. Fjöldi kvenna á löggjafarþinginu og í sveitarstjórnum skiptir miklu máli fyrir ungar stelpur sem hafa áhuga á pólitík.

Af því að ég er farin að tala um fyrirmyndir er rétt að nefna að ég held að árangur kvennalandsliðsins okkar í gær í fótbolta skipti t.d. afar miklu máli. Ég vil nota tækifærið, hæstv. forseti, til þess að óska þeim hjartanlega til hamingju með árangurinn því að hann er algerlega stórkostlegur. Ég er sannfærð um það og ég tel mig reyndar vita að árangur þeirra hefur gríðarlega mikil áhrif á stelpur sem æfa og spila fótbolta. Þarna erum við komin með landslið kvenna í fótbolta sem hefur sýnt það og sannað að þær eru með þeim bestu í heiminum. Stelpurnar sjá að þær geta ef þær bara vilja og fá tækifæri til þess. Þess vegna skipta fyrirmyndirnar mjög miklu máli.

Þessi tillaga til þingsályktunar skiptir máli varðandi þau skilaboð sem Alþingi sendir hér út um þau mál sem hér eru til umfjöllunar. Í dag var einnig lagt fram frumvarp sem ég mun væntanlega mæla fyrir á næstu dögum, frumvarp til breytinga á lögum um fjármálastofnanir, kannski að gefnu tilefni í ljósi þeirra atburða sem orðið hafa í íslensku efnahagslífi að undanförnu. Þar legg ég til ásamt nokkrum öðrum þingmönnum að norska leiðin verði farin, að sett verði í lög að jafnmargar konur og karlar verði í stjórnum fjármálastofnana. Skilaboðin sem koma héðan frá Alþingi í jafnréttismálum, hvort sem það er í þessu máli um aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum eða öðru, skipta máli og eitt útilokar ekki annað í þeim efnum.

Ég varð vör við það í umræðum þetta mál og fleiri á síðasta vetri að það varð opinber umræða um að búið væri að ná tilteknum árangri og óþarfi væri að setja svona mál á dagskrá. Ég er algjörlega ósammála því. Við eigum alltaf að vera á vaktinni og við eigum alltaf að ræða þessi mál því að sagan hefur sýnt okkur konum að ef við erum ekki á vaktinni, flytjum þessi mál og tölum fyrir þeim gerir það enginn annar.