136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum.

30. mál
[12:14]
Horfa

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða mjög mikilvægt mál um aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum. Hlutur kvenna í stjórnmálum er ekki eðlilegur miðað við það að konur eru helmingur landsmanna. Hér hefur verið rækilega farið yfir það hvernig málin hafa þróast.

Árin 1999–2003 var staða kvenna góð ef við horfum aðeins til þingsins. Hér hefur komið fram að það er m.a. þakkað því að í þinginu kom fram þingmál 1997–1998, sem var samþykkt, um aðgerðir til að auka hlut kvenna í stjórnmálum. Þetta var fimm ára aðgerðaáætlun, nefnd var sett á laggirnar og í kjölfar þeirrar vinnu jókst hlutfall kvenna á þingi um 10%, þ.e. á árunum 1999–2003. Ég verð að segja að með þá reynslu að hafa setið á þingi fyrir og eftir þann tíma hefur þróunin því miður orðið aftur á bak og við finnum fyrir því. Við finnum fyrir því, konur, þegar fækkar í okkar hópi, t.d. innan þingflokkanna, á vinnubrögðum og umræðunni.

Eftir kosningarnar árið 1999 var sá þingflokkur sem ég átti sæti í, þingflokkur Samfylkingarinnar, með fleiri konur en karla. Það var mjög óvenjulegt, það er í annað skipti sem það gerist en fyrri þingflokkurinn sem var með fleiri konur en karla — fyrir utan náttúrlega Kvennalistann á sínum tíma þar sem voru engir karlar — var þingflokkur Þjóðvaka þar sem voru fleiri konur en karlar. Það skiptir verulegu máli, það er öðruvísi tekið á hlutunum þar sem konurnar eru ráðandi. Það er mikill munur að starfa við þær aðstæður, sérstaklega þegar horft er til jafnréttismála og þeirra mála sem konur telja mikilvægust.

Mig langar að nefna aðeins þetta átak sem farið var í eftir að þingsályktunartillagan var samþykkt á 122. löggjafarþingi. Þetta átak vakti nefnilega mikla athygli, m.a. hefur auglýsingaherferðin sem farið var í síðar verið kennsluverkefni í kennslubókum í Bandaríkjunum og hefur vakið athygli eiginlega á heimsmælikvarða sem ég vil geta hér úr því að við erum að ræða þessi mál.

Mér fundust líka athyglisverð þau atriði sem hv. þm. Ásta Möller nefndi hér, bæði hvað varðar þær tölur sem hún hefur tekið saman um þróunina hér á landi og sömuleiðis þessi könnun sem Alþjóðaþingmannasambandið hefur farið í og niðurstöður hennar, mjög athyglisverðar niðurstöður þar á ferðinni og mikil og góð röksemdafærsla fyrir því að fara í aðgerðir til að auka hlut kvenna bæði á þingi og í sveitarstjórnum.

Kvenréttindafélag Íslands hefur samþykkt áskorun til Alþingis um að samþykkja þessa tillögu. Ég verð að segja að ég tek undir þá áskorun, ég tel mjög mikilvægt að við samþykkjum tillöguna. Hún mun fara til hv. félags- og tryggingamálanefndar að lokinni þessari umræðu og það verður að segja um þá nefnd að þar er aðeins ein kona, þar er nú ekki jafnréttinu fyrir að fara, en sú sem hér stendur á sæti í þeirri nefnd og mun leggja því lið að þetta mál verði samþykkt þar. Það er verulega mikilvægt að farið verði í þá vinnu sem hér er lögð til. Skýr skilaboð verða að koma frá Alþingi um að það þurfi að bæta stöðu kvenna, bæði í sveitarstjórnum og á þingi.

Svona hluti þarf að tala um, það þarf að tala um þá þangað til árangur næst. Þannig er það með jafnréttismálin, það þarf að tala um þau þangað til við náum jafnréttinu fullkomlega. Það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, fyrstu sætin skipta mestu máli. Þar verða konur að vera og þær þurfa að vera í öruggum sætum. Stjórnmálaflokkarnir verða að taka ábyrgð, taka málin í sínar hendur og tryggja að konur komist í þessi sæti.

Ég hef verið í stjórnum margra kvennahreyfinga, m.a. í Kvenréttindafélaginu, og unnið að þessum málum. Ég hef verið hlynnt því að farið verði í átaksaðgerðir. Ég hef ekki verið sammála fléttulistaaðferðinni og hef ekkert legið á því. Það er nefnilega þannig að flokkarnir eru missterkir eftir kjördæmum og það verður að vera þannig að t.d. tvær konur geti verið í tveim efstu sætunum eins og hefur verið hjá Samfylkingunni. Árið sem við konurnar vorum fleiri í þingflokki Samfylkingarinnar en karlarnir voru tvær konur í efstu sætum á höfuðborgarsvæðinu þar sem við vorum sterkust. Ef við hefðum verið með fléttulista, ein kona og karl til skiptis, hefðum við ekki verið eins margar. Það sést ef við skoðum reynsluna. Sama á við í Suðvesturkjördæmi þar sem konur voru fleiri í öruggu sætunum. Við þurfum að horfa á þetta aðeins víðar en með fléttulistana.

Ég tek undir það að prófkjör eru karlaaðferð. Það er mjög erfitt fyrir konur að fara í prófkjör, það er mjög erfitt fyrir konur að skuldsetja sig í slíkri baráttu og það er skaðlegt fyrir flokkana að vera með átök inn á við þannig að samherjar takist á við að komast áfram í stjórnmálum. Það er skaðlegt og það er ekki gott fyrir flokka að vera alltaf með prófkjör. Það getur vel verið að það sé hægt að koma því þannig fyrir að vera stundum með prófkjör en ekki við hverjar kosningar, það er ekki gott.

Hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir nefndi kvennaknattspyrnuna og glæsilegan árangur okkar kvenna í gærkvöldi og ég er alveg sammála því að þetta á eftir að skila miklum árangri, breyta afstöðu ungra stúlkna og auka sjálfstraust þeirra á allan hátt.

Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins leggja því lið að hvetja til þess að þetta þingmál verði samþykkt. Ég mun gera það í nefnd þegar málið kemur til hv. félags- og tryggingamálanefndar en þetta er vissulega mál sem þarf að huga að. Við vitum ekkert hvaða kosningar verða næstar þannig að ég held að það þurfi að huga að konum í bæði alþingis- og sveitarstjórnarkosningum. Við vitum a.m.k. hvenær sveitarstjórnarkosningar verða og mikilvægt er að samþykkja þetta mál í ljósi þess að þær eru fram undan, en munum líka eftir konum á þingi því að viðhorf kvenna þurfa að vera sterk hvort sem er á löggjafarsamkundunni eða í sveitarstjórnum.