136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum.

30. mál
[12:23]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Sú tillaga sem hér er til umræðu um að auka aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum er flutt af þingmönnum úr öllum stjórnmálaflokkum og því augljóst að hún hefur breiðan pólitískan stuðning. Þessi tillaga var áður flutt á síðasta löggjafarþingi en var þá ekki afgreidd þannig að hún er endurflutt hér.

Ég vil strax í upphafi lýsa því yfir að ég er eindreginn stuðningsmaður þess að þessi tillaga nái fram að ganga og verði samþykkt og tel að sá breiði pólitíski stuðningur sem er við hana í formi þess að flutningsmenn eru úr öllum flokkum eigi að vekja vonir um að hún geti náð fram að ganga á þessu þingi. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum skilgreint okkur sem femínískan flokk og ég veit að það eru að sjálfsögðu femínistar í öllum flokkum, eða vona það a.m.k., og þess vegna erum við mjög eindregnir stuðningsmenn þess að auka og jafna hlut kynjanna á hvaða vettvangi sem er, m.a. í hinu pólitíska umhverfi.

Eins og hér hefur komið fram hjá þeim sem þegar hafa tekið til máls í þessari umræðu er í raun ekki boðlegt að hinn pólitíski vettvangur sé jafnmisskiptur milli kynja og raun ber vitni, að ég tali ekki um þegar horft er til þess að við höfum horft upp á bakslag í þessari baráttu og þessari stöðu á undanförnum árum. Í greinargerð með þessari tillögu er einmitt birt yfirlit yfir hlut kvenna í sveitarstjórnum annars vegar og á Alþingi hins vegar nokkrar kosningar aftur í tímann. Þó að vissulega hafi orðið aukning á hlut kvenna bæði í sveitarstjórnum og á Alþingi yfir lengri tíma litið horfum við upp á það að t.d. í þingkosningunum 2003 varð nokkurt bakslag miðað við kosningarnar 1999 og það þokaðist ákaflega lítið áfram í kosningunum 2007. Það má segja það sama með sveitarstjórnirnar, hlutur kvenna er þar enn þá of rýr, í kosningunum 2006 var hann tæp 36%, talsvert hærri þó en hlutur kvenna á Alþingi og er það að sjálfsögðu vel en breytir ekki því að hér þarf að gera betur.

Það er einfaldlega þannig að alls staðar í heiminum sæta konur í raun misrétti vegna kynferðis. Það er staða sem stríðir gegn grundvallarmannréttindum, það er staða sem endurspeglast líka í menningarlegri, félagslegri, efnahagslegri og stjórnmálalegri stöðu kvenna. Við höfum að sjálfsögðu lagt áherslu á það í mínum flokki að berjast fyrir fullum mannréttindum, og kvenréttindi og kvenfrelsi eru hluti af þeirri stefnumótun. Sú barátta kallar vissulega á breytt hugarfar, hún kallar á uppstokkun ríkjandi gilda í samfélaginu og felur í sér að það verður að beita aðgerðum á vettvangi stjórnsýslu og sameiginlegra stofnana samfélagsins til að ná viðunandi árangri í þessari baráttu.

Ég held að þegar við horfum á stöðuna í stjórnmálum megi kannski segja að á þeim vettvangi sé jafnvel meira jafnrétti en á mörgum öðrum sviðum samfélagsins. Afsakar það að sjálfsögðu ekki þá stöðu sem við stöndum frammi fyrir á Alþingi og í sveitarstjórnum en ef við horfum t.d. til viðskiptalífsins, atvinnulífsins, er mjög mikið verk óunnið á þeim vettvangi. Hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir greindi frá því að hún flytti hér þingmál þar sem m.a. er tekið á hlutfalli kynjanna í stjórnum fyrirtækja, (SVÓ: Fjármálafyrirtækja.) fjármálafyrirtækja og vísaði þar til hinnar svokölluðu norsku leiðar. Ég tek undir það með henni að það er leið sem ég held að við verðum að fara að fara vegna þess að það virðist ekki vera hægt að ná árangri öðruvísi en með því að grípa til markvissra aðgerða í þessu sambandi.

Hér kom m.a. fram í máli hv. flutningsmanns þessarar tillögu og reyndar í máli annarra þingmanna líka að sú vinna sem fór fram í kjölfar þingsályktunar sem samþykkt var hér fyrir allmörgum árum hefði leitt til þess að hlutur kvenna jókst umtalsvert í þingkosningunum 1999 en þá fór hlutfall kvenna úr rúmum 25% í tæp 35% á milli kjörtímabila sem var auðvitað umtalsvert stökk og verulegur árangur. Ég segi bara fyrir mína parta að ef aðgerðir af þessum toga, átaksverkefni eða hvaða aðgerðir aðrar sem menn telja að séu til þess fallnar að rétta hlut kynjanna, skila árangri á þessum skala, t.d. í næstu sveitarstjórnarkosningum, verðum við í allt annarri stöðu en við erum í í dag. Ég held því að það sé sannarlega tímabært að grípa til ráðstafana í þessu efni.

Hér hefur verið talað um hlutverk stjórnmálaflokkanna og að þeir verði að vera reiðubúnir til þess að vinna þetta mál innan frá, ef svo má segja, hver í sínum ranni. Ég tek undir það, ég held að það sé afar þýðingarmikið. Hlutur kvenna verður auðvitað ekki aukinn, hvorki í sveitarstjórnum né á Alþingi, nema í gegnum stjórnmálaflokkana og þá þau samtök eða stjórnmálahreyfingar sem bjóða fram og þá verða menn að vera reiðubúnir á þeim vettvangi til að vera með kerfi getum við sagt sem tryggir jafnrétti, sem tryggir jafnan hlut beggja kynja.

Auðvitað hafa verið farnar ýmsar leiðir í þessu og það má kannski segja að margar leiðir geti verið færar. Við höfum farið þá leið í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, bæði til alþingiskosninga síðast og eins fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar, að vera með svokallaða fléttulista þar sem við höfum a.m.k. í prófkjörum gengið þannig frá málum að kynjunum sé raðað á listana til skiptis. Reyndar höfum við líka sagt að jákvæð mismunun geti komið til álita þar sem hlutur annars kynsins er umtalsvert minni en viðunandi er og í stjórnmálunum á það fyrst og fremst þá við um hlut kvenna. Þannig háttaði t.d. til í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur hjá okkur í VG fyrir síðustu þingkosningar að í fjórum efstu sætunum í Reykv. n. eru tvær konur og tveir karlar, þ.e. kona í 1. og 4. sæti og karl í 2. og 3., en í Reykv. s. eru í fjórum efstu sætunum þrjár konur og einn karl. Þrjár konur í fyrstu þremur sætunum og karl í 4. sæti. Þetta töldum við okkur geta gert á grundvelli ákvæðis um jákvæða mismunun þó að meginreglan í prófkjörinu hefði verið fléttulisti. Í öðrum kjördæmum höfum við notast við fléttulista sem virkar þá þannig að ef karl er í 1. sæti er kona í 2. og síðan getur þá verið hvort sem er karl eða kona í 3. og svo öfugt í 4. Þetta höfum við notað með ágætum árangri og í okkar níu manna þingflokki eru sem sagt fjórar konur og fimm karlar þannig að það er eins jöfn skipting og fæst miðað við oddatölufjölda.

Fyrir hönd okkar í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs tek ég undir það þingmál sem hér hefur verið mælt fyrir og tel að í raun og veru sé ekki eftir neinu að bíða að taka það til umfjöllunar í nefnd og helst afgreiða sem allra fyrst því að um það á að vera nokkuð breið samstaða þannig að Jafnréttisstofa geti þá, verði þessi tillaga samþykkt, farið af stað með þetta verkefni í því skyni að efla hlut kvenna í sveitarstjórnum fyrir næstu kosningar. Að sjálfsögðu má hugsa sér að víkka það jafnvel út til næstu þingkosninga í framhaldinu því að það er ekki eftir neinu að bíða í því efni. Eins og hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir gat um er aldrei að vita hvenær þær fara fram.