136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum.

30. mál
[12:35]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er algjörlega sammála því sem hv. þingmaður segir að aðferðafræði flokkanna skiptir miklu máli og hægt er að fara ýmsar leiðir í þessu sambandi. Nú er að vísu svo að það er ekkert öruggt í henni veröld þegar kemur að sætum til þings eða sveitarstjórna hvað flokkana varðar. Auðvitað getur fylgið hreyfst á milli flokka. Það er ekkert fast bundið eða öruggt í því efni.

Flokkarnir vita í stórum dráttum hvað þeir geta reiknað með að hafa af fulltrúum í sveitarstjórnum og á þingi og auðvitað skipta efstu sætin mestu máli.

Það er líka hægt að segja að ef menn eru með prófkjör – og ég tek undir það sem hér hefur verið sagt með prófkjörin, þau geta í fyrsta lagi verið hagfelldari fyrir karla en konur almennt séð og líka hagfelldari fyrir þá sem fyrir sitja en nýliða, það er tvennt í því.

Ef slíkar leiðir eru farnar má hugsa sér að sá sem tekur þátt í prófkjöri þurfi að kjósa bæði karl og konu vegna þess að við gerum ráð fyrir því að skipting karla og kvenna sé jöfn. Ekki vegna þess að fólk eigi að komast inn á kynferði heldur vegna þess að það er svo mikilvægt fyrir breiddina í hinni pólitísku umræðu að hún sé spegill samfélagsins. Það gerist ekki ef hlutfall kynjanna er ójafnt. Það er því hægt að hugsa sér margar aðferðir í þessu sambandi. Ég held að við hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir séum í öllum meginatriðum sammála í þessu álitaefni. (SVÓ: Eins og í mörgu öðru.)