136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

samkeppnisstaða fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga.

32. mál
[12:54]
Horfa

Flm. (Ásta Möller) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi farið vitlaust fram úr rúminu í morgun. Það er ekki svo að verið sé að berja þessa tillögu í gegn í fjórða sinn. Hv. viðskiptanefnd afgreiddi tillöguna úr nefndinni til síðari umr. Eins og kom fram í lestri mínum áðan á nefndaráliti nefndarinnar var álit þeirra umsagnaraðila — en þeir voru fjölmargir — sem barst nefndinni um tillöguna almennt mjög jákvætt. Það er því ekki eins og þetta sé eitthvert upphróp í samfélaginu, að verið sé að ganga gegn einhverjum viðmiðunum eða gildum sem almennt eru viðurkennd í samfélaginu.

Ég sagði í ræðu minni að það væri mjög mikilvægt einmitt á þeim tímum sem við lifum nú að stuðla að auknum tækifærum fyrir fólk til að takast á við frumkvöðlastarf. Í greinargerð minni rek ég fjölmörg dæmi um starfsemi á vegum ríkisstofnana sem hefur rekist á horn starfsemi einkaaðila. Það er ekki af mannvonsku eða neinu slíku sem mál þetta er tekið upp en það hefur hins vegar gert það að verkum að starfsemi t.d. á vegum tölvufyrirtækja og þess háttar hefur verið aðþrengd og ekki fengið að blómstra eins og skyldi. Jafnvel hafa verkefni sem þessi fyrirtæki eru hæfust til þess að takast á við, hæfari en aðilar innan ríkisins, liðið fyrir það.

Ef hv. þingmaður hlustaði á mig í dag heyrði hann að ég las bréf frá Dagbjörtu Höskuldsdóttur í Stykkishólmi sem lýsti því nákvæmlega hvaða áhrif það hefur á (Forseti hringir.) starfsemi hennar þegar ríkisfyrirtæki eins og Íslandspóstur er farinn að selja ritföng. Ég get ekki ímyndað mér að hv. þingmenn séu sammála því að ríkið selji ritföng.