136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

samkeppnisstaða fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga.

32. mál
[12:59]
Horfa

Flm. (Ásta Möller) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vissulega er það ábyrgðarhluti en ég horfi á hann með algjörlega öfugum formerkjum við hv. þingmann. Ég tel einmitt að það felist í því mikil ábyrgð að koma með tillögur í þá veru að gefa fólki aukið tækifæri til að takast á við verkefni sem það hefur þekkingu til að leysa, fólk sem stendur jafnvel frammi fyrir atvinnuleysi í dag. Hafi þessi tillaga einhvern tíma verið tímabær er það einmitt í dag.

Um einkarekstur eða samstarf ríkis og einkaaðila varðandi heilbrigðisþjónustu þykir mér merkilegt að hv. þingmaður hafi lagt á sig að telja orðin þar sem heilbrigðisþjónustan er tekin til. Það er í einni eða tveimur málsgreinum sem rætt er um heilbrigðisþjónustu. (BVG: Tveimur síðustu.) Raunin er sú að 30% af því fjármagni sem fer til heilbrigðisþjónustu hér í landinu er á vegum annarra aðila en ríkisins. (Gripið fram í.) Ég hef ekki orðið vör við að hv. þingmenn Vinstri grænna hafi gert athugasemdir við stóran hluta af þeim rekstri.

Það sem hefur hins vegar vakið furðu mína er að hv. þingmenn Vinstri grænna hafa ekki gert athugasemdir við það þegar Hjúkrunarheimilið Grund er með samning við ríkið um ákveðinn rekstur en um leið og Hjúkrunarheimilið Grund, sami aðili, tekur að sér rekstur á einni deild á sjúkrahúsinu Landakoti, er eitthvað athugavert við það að þeirra mati. Það er því ekki heil brú í málflutningi Vinstri grænna varðandi samstarf einkaaðila og ríkisins um rekstur heilbrigðisþjónustu, ekki heil brú.