136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

samkeppnisstaða fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga.

32. mál
[13:41]
Horfa

Flm. (Ásta Möller) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér er vel kunnugt um afstöðu hv. þingmanns til málsins, hún hefur komið fram áður. Ég sagði í andsvari við annan hv. þingmann Vinstri grænna að ekki væri heil brú í málflutningi varðandi framsal ríkis og einkaaðila, eða þess vegna sjálfseignarstofnana ríkis og annarra en ríkisins í heilbrigðisþjónustu. Við tókum mjög snarpa umræðu t.d. um sjúkratryggingafrumvarpið núna í september og reyndar líka í vor. Í september kom einmitt fram það sjónarmið frá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur að vinstri grænir væru í sjálfu sér ekki á móti einkarekstri í heilbrigðisþjónustu en ekki var nokkur leið að finna út úr því hvar mörkin liggja. Hvað er það sem vinstri grænir eru á móti í einkarekstri og hvað er það í einkarekstri heilbrigðisþjónustunnar sem þeir eru tilbúnir að vera með?

Skýrustu mörkin voru einmitt varðandi rekstur Hjúkrunarheimilisins Grundar á Hjúkrunarheimilinu Grund, sem samkvæmt ummælum hv. þingmanna Vinstri grænna er í lagi. En þegar Hjúkrunarheimilið Grund bauð í rekstur hjúkrunardeildar á Landakoti í því skyni að opna þá deild sem hafði verið lokuð töluvert lengi og þar að auki fól tilboðið í sér sparnað fyrir ríkið, ekki aukinn kostnað eins og hv. þingmaður nefndi áðan heldur sparnað á ársgrundvelli, 14 eða 17 milljónir — ég man ekki hvort var en það var á þessu bili — þá var eitthvað athugavert við það. Hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur oftar en einu sinni og oftar en tvisvar komið í ræðustól til þess að mótmæla nákvæmlega þeirri tilhögun að bjóða út rekstur á hjúkrunardeild á Landakoti, (Forseti hringir.) þó vitandi að það mundi hjálpa fleira fólki. Þetta skil ég ekki, það er þessi brotna brú sem ég næ ekki.