136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

samkeppnisstaða fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga.

32. mál
[13:48]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Í fyrsta lagi að mér sé sama um rekstraraðilann, hver hann er og á hvaða forsendum hann starfar, þá er það ekki svo. (Gripið fram í.) Nei, það er ekki svo. Ég hef verið að gera grein fyrir hvaða munur getur verið þar á. Dýrari kostur fyrir ríkið og jafnframt lélegri kjör sérstaklega fyrir þá sem neðst standa. Það liggur í því eins og fram kom í skýrslu Ríkisendurskoðunar um Sóltún á sínum tíma að eigendur þurfa að hafa arð af þessari starfsemi. Það var skýringin á því að Sóltúnskosturinn var dýrari fyrir skattborgarann en aðrir kostir. Þetta er staðreynd.

Þegar ég segi að frumvarpið dragi taum skjólstæðinga Verslunarráðs og Viðskiptaráðs sem nú heitir, og hv. þingmaður tekur til sín og segir að ég sé að tuða um hagsmuni hennar, þá minntist ég ekkert á hv. þingmann í þeim málflutningi mínum, ég gerði það ekki. Ég er að tala almennt um þessa aðkomu og segja að Sjálfstæðisflokkurinn dragi taum þessara aðila. Þetta er bara pólitísk skoðun og pólitísk barátta sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir og ég er að gagnrýna. Hvað varðar tengsl einstaklinga í því samhengi hef ég sagt að ef menn telja sig borna einhverjum ósanngjörnum sökum sé bara ein ósköp einföld leið í því, þ.e. að upplýsa um öll slík tengsl.

Ég hef aldrei skilið hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn er ekki tilbúinn að fara að dæmi okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og setja þetta á borðið. Við erum með inni á okkar heimasíðum upplýsingar um öll okkar tengsl, (Forseti hringir.) eignatengsl þar með. (Gripið fram í: Og skuldir?) Og skuldir? (Forseti hringir.) Ja, það er alveg álitamál að gera það líka. Ég skal upplýsa hv. þingmann um allar mínar skuldir ef hún hefur áhuga á því.