136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

samkeppnisstaða fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga.

32. mál
[14:19]
Horfa

Flm. (Ásta Möller) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður hefur lokið máli sínu.

Í framsöguræðu minni las ég bréf frá kjósanda á Vesturlandi, Dagbjörtu Höskuldsdóttur í Stykkishólmi (Gripið fram í: Góðri vinkonu og frænku.) góðri vinkonu og frænku minni. Hún segir farir sínar ekki sléttar og ég veit að hv. þingmaður þekkir þá sögu ágætlega. Hún hefur rekið bóka- og ritfangaverslun í Stykkishólmi frá 1994 í húsnæði sem hefur verið rekin verslun í frá 1937, í 71 ár.

Dagbjört segir frá því að Íslandspóstur, hlutafélag að fullu í eigu ríkisins, hafi ákveðið að auka vöruúrval sitt eftir að hafa byggt ágæta aðstöðu í Stykkishólmi og reyndar víðar um landið og þar segir hún, með leyfi forseta:

„Þar er nú til sölu mikið af alls konar skrifstofuvörum, ritföngum tölvuvörum, jafnvel föndurvara og geisladiskar og smávægilegt sýnist mér af bókum, svo ekki sé talað um að þeir eru komnir út í samkeppni við ljósmyndastofur og jafnvel prentstofur en það þekki ég ekki vel.“

Nú langar mig að spyrja hv. þingmann: Hvað finnst honum um þetta? Finnst honum eðlilegt hlutverk Íslandspósts, sem er ríkisfyrirtæki, að fara yfir á þetta svið einkaframtaks — sem mér finnst reyndar vera það sama og einstaklingsframtak þó að hv. þingmaður hafi viljað meina annað hér áðan — hvað finnst honum um þetta? Nú spyr Dagbjört Höskuldsdóttir hér, með leyfi forseta:

„Er þetta eðlilegur viðskiptamáti, er þetta kjarnastarfsemi Íslandspósts?“

Mig langar að heyra svar hv. þingmanns við þessu því hann talar mjög mikið fyrir opinberum rekstri og ekki er langt síðan ríkið rak prentsmiðju, síldarverksmiðju, skipaútgerð, lyfjaverslun, skýrsluvélar, fjarskiptafyrirtæki og rafmagnsvöruinnflutning. Ég spyr því: Hvar eiga mörkin að liggja, hv. þingmaður?