136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

samkeppnisstaða fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga.

32. mál
[14:26]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Að sjálfsögðu á þessi umræða sér ýmsar hliðar, en ef hún er sett fram undir því markmiði að einkavæðing sé það sem eigi að stefna að í opinberri þjónustu og að opinbera þjónustan sé einhvers konar neyðarúrræði þá er ég ekki sammála því. Suma grunnþætti á að standa vörð um og þar má gefa metnaði í starfi tækifæri. Vel má vera að í sumum byggðarlögum sé verjanlegt og eðlilegt að Íslandspóstur geti selt pappír og annað slíkt ef þar er ekki samkeppnisumhverfi. Það verður náttúrlega að meta þjónustuþörfina og þjónustustigið.

En hlutafélagavæðing á þjónustufyrirtækjum og síðan sala eins og á Íslandspósti eða á Landssímanum, einkavæðing á honum og sala á Símanum, hefur leitt til mun verri og dýrari þjónustu um allt land. Það var hins vegar keyrt fram af miklu offorsi og blindri trú á einkavæðingu opinberrar þjónustu. Greinilega hefur komið fram, m.a.s. hjá forustumönnum stjórnar Íslandspóst, að markaðsvæðing fyrirtækja sé frumskilyrði og krafa af hálfu ríkisins. Þá verður að byrja á því, og ríkisstjórnin átti að byrja á því, að taka þá kröfu af Íslandspósti að hann eigi fyrst og fremst að vera rekinn á markaðslegum forsendum.

Af því að við tölum um Íslandspóst sýnist mér að hann fari einmitt svo hryllilega kolranga leið í einkavæðingar- og markaðsvæðingarstefnunni að hún bitni fyrst og fremst á þeim sem eiga að (Forseti hringir.) njóta grunnþjónustu hans.