136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

samkeppnisstaða fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga.

32. mál
[14:28]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er ástæða til að fagna þessari þingsályktunartillögu sem er til umræðu undir forustu Ástu Möller. Þessi tillaga fékk góðan framgang á síðasta þingi en náði því miður ekki afgreiðslu á lokametrunum. Mér finnst þetta ágætisdæmi um mál sem eðlilegt er að þingið hleypi í gegn, eitt af svokölluðum þingmannamálum sem hafa gengið frekar hægt í gegnum þingið. Vonandi verður einhver breyting á því eins og forseti hefur reyndar boðað.

Ég get ekki látið hjá líða að blanda mér aðeins í umræðuna. Hv. þm. Jón Bjarnason talar fallega um einstaklingsframtakið og er það vel. Ég held að hann hljóti þar með að vera kominn á þá skoðun að frelsi einstaklingsins geti verið gott á mörgum sviðum. Hann fagnar einstaklingsframtakinu en líst ekki á einkaframtakið. Þetta kom fram í lok ræðunnar og mig langar að spyrja hann að því: Hver er munurinn á því og af hverju — af því að Íslandspóstur er sérstaklega til umræðu — er einstaklingsframtakið svona óskaplega vont þegar kemur að póstþjónustu en ekki þegar um var að ræða ritfangaverslunina í Stykkishólmi?

Fyrst og fremst þetta: Er einkaframtak eitthvað annað en einstaklingsframtak og frelsi einstaklingsins eins og þingmaðurinn hv. talaði svo fallega um?