136. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2008.

rannsókn á hræringum á fjármálamarkaði.

[13:40]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég vil taka undir meginsjónarmið þingmannsins sem hann hefur gert grein fyrir. Ég vek athygli á því að nokkrum dögum eftir að þeir atburðir urðu sem í daglegu tali eru nú kallaðir hrun bankanna greindi ég frá því að af minni hálfu stæði til að láta rannsaka það mál til hlítar og gera um málið það sem kalla mætti á íslensku hvítbók.

Við forseti Alþingis höfum síðan rætt þetta mál og það hefur einnig verið rætt í ríkisstjórninni. Ég tel eðlilegt að Alþingi hafi þar ákveðna forustu og mun beita mér fyrir því í samstarfi við forseta Alþingis og vonandi forustumenn allra flokka á Alþingi að málinu verði komið í farveg sem ekki verði deilt um. Nóg er samt um þrætur og deilur í þjóðfélaginu út af þessu máli þó að sá þáttur málsins verði hafinn yfir slíkt. Ég mun að sjálfsögðu beita mér fyrir slíkri niðurstöðu og það verður velt við hverjum steini þegar að því kemur í þessari athugun, vænti ég. Við þurfum að fá til verksins einstaklinga sem allir geta treyst en við gætum hugsanlega jafnframt þurft að leita til erlendra sérfræðinga um aðstoð eða ráðgjöf á þessu sviði. Það er enginn áhugi á því að draga þetta mál eða tefja það. Það þarf að vanda undirbúninginn og gera þetta vel þannig að allir þingmenn, allir þingflokkar, allir aðilar í þjóðfélaginu sjái að rétt og eðlilega sé að málinu staðið. Ég lagði strax upp með það í Morgunblaðsviðtali 12. október sl. og hef margítrekað á Alþingi að til stendur að gera það.