136. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2008.

frumvarp um eftirlaun.

[14:00]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég tel það hneyksli hvernig Samfylkingin hagar sér í þessu máli. Það er fáránlegt að þurfa að hlusta á það hér að hæstv. ráðherra segi að hann vilji helst ekki knýja stjórnarandstöðuna til að taka þátt í þessu máli. Hvað er hér á ferðinni, virðulegi forseti? Við höfum sagt að við viljum breyta þessu. Við bjóðum fram krafta okkar og samstarf. Hér er 43 manna meiri hluti stjórnarflokkanna, fleiri en tveir þriðju þingmanna tilheyra stjórnarflokkunum og Samfylkingin er þar á meðal. Ég spyr aftur: Af hverju er ekki búið að breyta þessu? Af hverju hefur Samfylkingin ekki beitt sér í því? Af hverju er ekki búið að ná samstöðu um breytingar fyrst þingmenn Samfylkingarinnar eru óþreytandi að koma hér upp og heimta breytingar á þessu strax? Menn skulu þá bara gera það og vinda sér í það mál og hætta að benda á einhverja aðra.