136. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2008.

frumvarp um eftirlaun.

[14:01]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég tek undir hvert orð sem hv. þingmaður sagði: Við skulum vinda okkur í að breyta þessum lögum, til er ég í það. Það er fólk í þessum þingsölum sem er þeirrar skoðunar að það sé svo erfitt að gera það, að ekki sé hægt að ná því fyrir jól. Einn situr á ská fyrir aftan hv. þingmann, það er hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir. Ég heyrði hana segja í útvarpi á laugardaginn að hún teldi að ekki væri hægt að breyta því fyrir jól. Ég veit ekki af hverju hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir er þeirrar skoðunar en hún sagði það eigi að síður. Ég er ekki að ýja að því að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir eða þingmenn Framsóknarflokksins yfirleitt séu eitthvað á móti því. Ég bendi bara á það að þeir sem sitja í þessum sölum og hafa meiri þingreynslu en jafnvel hæstv. iðnaðarráðherra og hæstv. fyrrverandi umhverfisráðherra Siv Friðleifsdóttir telja vandkvæði á því. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að ekkert eigi að standa í vegi fyrir því að eftirlaunalögunum verði breytt fyrir jól. Samfylkingin er til í þann dans og vonandi allir.