136. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2008.

samstarf um nýtt lagaumhverfi fyrir fjármálakerfið.

[14:03]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Fjármálakerfið á Íslandi er komið á hliðina. Efnahagskerfið í heild sinni á í miklum alvarlegum og vaxandi erfiðleikum en það sorglega er að þetta hefði ekki þurft að fara svona. Það sorglega er að ef löggjafinn hefði reist nauðsynlega múra til varnar almenningi og heimilum í landinu hefði t.d. Icesave-hneykslið ekki orðið að veruleika og við stæðum ekki frammi fyrir þeirri hrikalegu katastrófu sem við nú gerum.

Ég nefni sem dæmi um reglur og löggjöf sem setja hefði þurft um ýmislegt sem snertir krosstengsl í viðskipta- og fjármálalífinu, lög um aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingarsjóða sem hefðu komið í veg fyrir Icesave-hneykslið þar sem viðskiptahlið bankans fóðraði óseðjandi fjárfestingarófreskjuna. Nú þegar við stöndum frammi fyrir því að greiða úr þeim flækjum sem eru í fallít fjármálakerfi þjóðarinnar blasir við okkur annað og ekki síður alvarlegt og mikilvægt verkefni en það er að reisa nýtt fjármálakerfi. Þá skiptir miklu máli hvernig til tekst um allt lagaumhverfið og ég leyfi mér að beina þeirri spurningu til hæstv. forsætisráðherra hvort hann muni beita sér fyrir þverpólitískri aðkomu alls þingsins að því starfi. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum aftur og ítrekað á undanförnum mánuðum, missirum og árum lagt fram tillögur í þessa veru. Þær hafa allar verið hunsaðar og nú spyr ég: Er hæstv. forsætisráðherra reiðubúinn að efna til þverpólitísks samstarfs um nýtt lagaumhverfi fyrir íslenska fjármálakerfið?