136. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2008.

samstarf um nýtt lagaumhverfi fyrir fjármálakerfið.

[14:05]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Eins og hv. þingmaður veit byggist lagaumgjörðin um fjármálakerfið á Íslandi á samevrópskum reglum. Bæði hér á landi og annars staðar hafa þær að ýmsu leyti reynst mjög gallaðar. Það þarf að laga til í þeim efnum og við eigum að taka forustu um það á Íslandi sjálf, það sem snýr að okkur. Atriði eins og hv. þingmaður kallaði réttilega Icesave-hneykslið mega ekki koma upp í nokkurri mynd aftur. Þetta verkefni sem við í ríkisstjórn og fólk á okkar vegum er nú að eyða dýrmætum tíma sínum í að reyna að greiða úr, er auðvitað ömurlegt mál á alla lund.

Samkvæmt verkaskiptingu í Stjórnarráðinu hefur viðskiptaráðherra frumkvæði að undirbúningi löggjafar um regluverkið á fjármálasviðinu. Eftir það kemur málið til ríkisstjórnar og þingflokka hennar og síðan til Alþingis þannig að á þeim vettvangi koma allir flokkar að og ég er alveg sannfærður um að góð ráð úr ranni Vinstri grænna verða ekki síður vel metin en annarra í þessum efnum. Það er eitt og annað í regluverki okkar sem eftir á að hyggja reyndist ekki vel og krosseignarhald, eignarhald eignarhaldsfélaga á hlutabréfum í bönkunum og fleira af því tagi eru atriði sem við höfum brennt okkur illilega á. Koma þarf í veg fyrir að lagaákvæði um þetta og evrópskar reglur verði misnotaðar af öflum og aðilum sem ekki hafa hagsmuni þjóðarbúsins að leiðarljósi.