136. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2008.

orð þingmanns um eftirlaunafrumvarp.

[14:10]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir að fá að segja örfá orð og útskýra mína hlið málsins.

Hæstv. iðnaðarráðherra bar það á mig áðan að ég hefði sagt að ekki væri hægt að breyta eftirlaunalögunum fyrir jól. Málið er þannig vaxið að ég tók ásamt fleiri þingmönnum þátt í umræðum á laugardag í þætti sem heitir Í vikulokin. Þar ræddum við um þessi margumtöluðu eftirlaunamál og eftirlaunalög og fórum yfir það öll frá okkar sjónarhorni. Ég ætla ekki að fara yfir það hverjir hinir þingmennirnir voru. Nema hvað að ég fór yfir hvernig Samfylkingin þjófstartaði í málinu eins og hv. 10. þm. Suðvesturkjördæmis gerði áðan og að það hefði gert málið miklu erfiðara en það hefði þurft að vera t.d. vegna þess að þetta kemur fram í stjórnarsáttmála og það þýðir að sjálfstæðismenn og Samfylking ætla að taka á þessu máli saman. En með þessu þjófstarti Samfylkingarinnar er málið miklu flóknara og þess vegna ber Samfylkingin ábyrgð á því að málið er ekki komið lengra en raun ber vitni.

En það sem ég sagði var: Þetta verður ekki samþykkt fyrir jól (Forseti hringir.) og ég vísa til þess sem ég sagði áðan. Hæstv. ráðherra sagði að ég hefði sagt að ekki væri hægt að samþykkja þetta fyrir jól — (Iðnrh.: Ég sagði það ekki.) jú, þú sagðir það.