136. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2008.

staða á fjölmiðlamarkaði á Íslandi.

[14:20]
Horfa

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka Guðna Ágústssyni, hv. þingmanni Suðurkjördæmis, sérstaklega fyrir að taka þetta mikilvæga mál upp hér á Alþingi þannig að þingmönnum öllum gefist tækifæri til þess að tjá hug sinn til þessarar þróunar á fjölmiðlamarkaði. Málefni fjölmiðla hafa verið mjög til umræðu í þjóðfélaginu, á Alþingi sem og annars staðar undanfarin ár og þá ekki síst sú varhugaverða þróun almennt á fjölmiðlamarkaði að eignarhald fjölmiðla færist nú á sífellt færri hendur.

Við munum það öll hversu deilurnar urðu harðar um fjölmiðlana á Alþingi vorið og sumarið 2004 en þá samþykkti Alþingi lög um fjölmiðla sem öðluðust ekki gildi þar sem forseti Íslands neitaði að staðfesta þau með undirritun sinni. Í kjölfarið á því taldi ég afar mikilvægt að hér næðist þverpólitísk sátt um stöðuna á fjölmiðlamarkaði með það í huga að fjölmiðlar gegna lykilhlutverki. Sú sátt náðist og þverpólitísk nefnd skilaði sameiginlegu áliti hvað varðaði eignarhaldið á fjölmiðlamarkaði. Þar voru því settar ákveðnar skorður.

Það þverpólitíska frumvarp varð ekki að lögum og nú blasir við, líkt og hv. þingmaður vekur athygli á, sú staða að einn maður getur nú öðlast yfirráð yfir nær öllum fjölmiðlum á Íslandi að Ríkisútvarpinu undanskildu. Það er auðvitað grafalvarlegt mál og kallar á mjög margar spurningar.

Þar ber fyrst að nefna þá undarlegu staðreynd að svo virðist sem banki sem nú er í eigu ríkisins virðist hafa átt frumkvæðið af þessum gjörningi ef marka má ummæli framkvæmdastjóra 365 í fjölmiðlum. Það skiptir að mínu mati miklu máli að sem mest gegnsæi ríki um allar þær ákvarðanir sem nú eru teknar í bankakerfinu í kjölfar atburða síðustu vikna. Það má ekki gerast að spurningar vakni um hvort verið sé að hygla ákveðnum einstaklingum eða fyrirtækjum á kostnað heildarhagsmuna. Það er ekki gott að óþarfa tortryggni skapist í þjóðfélaginu. Nóg er nú samt. Slík tortryggni getur að mínu mati leitt til ákveðinnar tæringar. Ég tel algjört lykilatriði í þessu samhengi varðandi fjölmiðlamarkaðinn að stjórn og stjórnendur Landsbankans skýri fyrir þjóðinni hvaða hagsmunir hafi legið þarna að baki.

Það er svo annað mál að ef af yrði væri mjög alvarleg staða komin upp fyrir fjölmiðlamarkaðinn í heild sinni. Fjölmiðlar eru lykilþáttur í lýðræðislegri þjóðfélagsumræðu. Það væri háskaleg þróun ef samþjöppun á fjölmiðlamarkaði yrði algjör. Hún stefnir í það. Það er með engu móti hægt að færa rök fyrir því að slík samþjöppun væri heilbrigð þegar litið er til lýðræðislegrar umræðu. Við þurfum að hvetja mjög til lýðræðislegrar umræðu þvert í samfélaginu.

Ég tel því mikilvægt að þetta mál verði skoðað annars vegar með hliðsjón af þeirri sjálfsögðu kröfu að fyrirtæki séu meðhöndluð með sama hætti í bankakerfinu og að eigendur bankanna, íslenskur almenningur, verði ekki hlunnfarinn. Hins vegar verður að skoða málið með hliðsjón af því mikilvæga hlutverki sem fjölmiðlar gegna í lýðræðisþjóðfélagi.

Hitt er svo annað mál að staðan á fjölmiðlamarkaði er alvarleg. Þar kemur fyrst og fremst tvennt til: Hrun á auglýsingamarkaði, sem er mikið, um 50% samkvæmt mínum tölum, og óhagstæð gengisþróun og hár fjármagnskostnaður. Nú þegar hefur verið boðað að ein sjónvarpsstöð, Skjár 1, mun hætta rekstri og ljóst er að öll fjölmiðlafyrirtæki í landinu berjast í bökkum.

Ég hef því, líkt og hv. þingmaður kom inn á, boðað sérstaka skoðun á stöðunni á fjölmiðlamarkaði og verður sérstökum starfshópi falið það verkefni. Ég vonast til að hann geti hafið störf nú í vikunni og unnið verk sín hratt og örugglega. Ég tel mikilvægt að stjórnarandstaðan komi inn í það verkefni.

Meðal þess sem skoða verður er sú samþjöppun sem á sér stað um þessar mundir og átti sér í raun stað núna um helgina eins og hv. þingmaður kom réttilega inn á. Hins vegar verður líka að skoða stöðu sjálfstæðra fjölmiðla með tilliti til umsvifa Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði, hvort rétt sé að takmarka hlutverk og umfang Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði til skemmri tíma eða til frambúðar. Í því ljósi verða menn þó að hafa hugfast að þrátt fyrir miklar sögur um fyrirferð Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði var hlutdeild þess í sjónvarpsauglýsingum innan við þriðjungur. Samhliða því sem auglýsingamarkaðurinn er skoðaður verður að fara yfir stöðu Ríkisútvarpsins sem ekki hefur farið varhluta af þeim efnahagslegu erfiðleikum sem nú hrjá samfélagið. Ríkisútvarpið okkar gegnir mikilvægu hlutverki á fjölmiðlamarkaði og um það hefur verið þverpólitísk samstaða. Það er vissulega óhjákvæmilegt að Ríkisútvarpið dragi saman seglin líkt og önnur fyrirtæki í landinu í ljósi aðstæðna en hins vegar verður að tryggja að það geti áfram gegnt sínu mikilvæga almannaþjónustuhlutverki með sóma.

Ef við blasir að algjör samþjöppun verður á markaði sjálfstæðra fjölmiðla, sem ég geld varhuga við, verður hlutverk Ríkisútvarpsins brýnna en nokkru sinni fyrr. Við slíkar aðstæður væri sömuleiðis varhugavert að setja því of þröngar skorður og afhenda (Forseti hringir.) einum aðila allan auglýsingamarkað landsins á silfurfati.