136. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2008.

staða á fjölmiðlamarkaði á Íslandi.

[14:28]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Guðna Ágústssyni fyrir að brydda upp á málinu og hæstv. menntamálaráðherra fyrir svörin. Sem kunnugt er hefur tekið til starfa fjölmiðlafyrirtæki með því fallega nafni Rauðsól. Við hljótum að óska því fyrirtæki allrar velgengni en um leið hlýtur maður að segja að ef unnt er að sameina í eitt fyrirtæki Morgunblaðið og Fréttablaðið er eitthvað mikið að á Íslandi.

Það getur einfaldlega ekki verið að það standist 17. gr. samkeppnislaga að sameina tvö stærstu blöð landsins í eitt fyrirtæki. Það leiðir svo augljóslega til einokunarstarfsemi á dagblaðamarkaði að þau lög sem Alþingi hefur sett hljóta að vernda neytendur fyrir slíkri sameiningu. Ég fagna því að hér á þingi höfum við skerpt á samkeppnislögunum. Slíkur samruni nær ekki fram að ganga fyrr en að lokinni athugun Samkeppniseftirlitsins og við hljótum að hafa traust á henni. En verði sú aðgerð ekki stöðvuð hlýtur Alþingi að þurfa að endurskoða samkeppnislöggjöfina því að það er líka hættulegt fordæmi fyrir önnur svið á markaði.

Ef þessi samruni verður ekki hefur í sjálfu sér ekki annað gerst, að öðru leyti en því sem lýtur að samkeppnislögunum, en að þeir miðlar sem reknir eru undir hatti 365 eru reknir í sérstöku fyrirtæki. Þá hafa ekki sameinast sérstakir miðlar. Við hér á þingi hljótum hins vegar að þurfa að huga aftur að þeim niðurstöðum sem tókust í sameiginlegri nefnd um fjölmiðlamál um þá hættu sem við höfum áður rætt, um ritstjórnarlegt sjálfstæði, hvernig hægt er að beita leyfisveitingum m.a. með ljósvakarekstri til þess að setja margvísleg skilyrði til að tryggja bæði fjölbreytni og sjálfstæði í fjölmiðlun á Íslandi. Það verður sannarlega mikilvægt á komandi mánuðum og missirum, (Forseti hringir.) sennilega sem aldrei fyrr.