136. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2008.

staða á fjölmiðlamarkaði á Íslandi.

[14:35]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Með kaupum Rauðsólar á fjölmiðlahluta 365 og fyrirhugaðri sameiningu Fréttablaðsins og Morgunblaðsins er að eiga sér stað mesta samþjöppun á fjölmiðlamarkaði sem sést hefur á Íslandi. Fullyrða má að hið nýja fjölmiðlafyrirtæki sem nú er að myndast hér á landi með 24 fjölmiðla innan vébanda sinna eigi sér engan samjöfnuð í hinum vestræna heimi. Gangi þessi áform eftir eru svo gott sem allir einkareknu fjölmiðlarnir hér á landi komnir á eina hendi. Slíkt getur varla talist lýðræðislegri umræðu í samfélaginu til framdráttar alveg óháð því á hvers hendi eignarhaldið er en fjármögnun kaupanna vekur auðvitað upp spurningar.

Árið 2004 var reynt að koma á regluverki hér á landi sem hafði þann tilgang að tryggja dreift eignarhald á fjölmiðlum og lýðræðislega umræðu í samfélaginu. Við sem stóðum að lögunum og samþykktum þau máttum á þeim tíma m.a. sæta ásökunum um að hafa gerst sekir um tilræði gegn lýðræðinu, valdhroka og valdníðslu og meira að segja dreifðu menn banönum á stéttir Alþingishússins. Undir þessi ósköp öll ýttu fulltrúar allra þeirra flokka sem þá voru í stjórnarandstöðu á Alþingi. Lögin hlutu ekki staðfestingu forseta Íslands sem hélt því fram að gjá hefði myndast milli þings og þjóðar. Í ljósi sögunnar er mjög athyglisvert, svo ekki sé meira sagt, að heyra að nú er komið allt annað hljóð í strokkinn hjá fulltrúum þeirra stjórnmálaflokka sem fyrir fjórum árum máttu ekki heyra á það minnst að slíkar reglur yrðu settar um eignarhald á fjölmiðlum og fundu málinu allt til foráttu. Og það væri ekki síður athyglisvert að fá nú upplýst hvort þeir sem töluðu hvað mest um gjána milli þings og þjóðar telji að hún sé enn til staðar eða hafi jafnvel verið brúuð og hvort þeir aðilar séu ánægðir með þá þróun sem átt hefur sér stað á íslenskum fjölmiðlamarkaði. (Forseti hringir.) Ég held að menn verði að velta því fyrir sér hvernig við viljum að fjölmiðlar á Íslandi þróist til framtíðar, frú forseti, og ég hef óskað eftir því við forseta Alþingis að fá að halda opinn fund í hv. menntamálanefnd um málið þar sem fulltrúar allra fjölmiðla geta komið sjónarmiðum sínum á framfæri.