136. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2008.

staða á fjölmiðlamarkaði á Íslandi.

[14:42]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Þó að ákveðinn auðmaður, í þessu tilviki handhafi Rauðsólar, hafi ákveðið að kaupa fjölmiðla sem ekki var rekstrargrundvöllur fyrir í góðæri, er í sjálfu sér ekkert við því að segja þó að slíkur maður vilji setja peningana sína í fyrirtæki sem varla geta talist óarðbær nema að það séu ákveðnar reglur sem gilda í þjóðfélaginu um samkeppnisrétt. Að mínu viti brýtur þetta algerlega í bága við þær reglur og hugmyndir sem menn hafa um samkeppni. Í annan stað gilda víða reglur vegna eðlis fjölmiðla, m.a. í Danmörku þar sem kveðið er á um að fyrirtæki í ákveðnum rekstri megi ekki eiga ráðandi hlut í útvarpsstöðvum. Í Noregi er miðað við að tryggja beri fjölbreytni í fjölmiðlum með sérstakri löggjöf og það er vísað til 2. mgr. 10. gr. sáttmála um mannréttindi sem við höfum í okkar löggjöf. Þessi sjónarmið gera það að verkum að handhafar þeirra úrræða sem hér eru, m.a. Samkeppniseftirlitið, hafa alla möguleika og grundvöll til að bregðast við að hér verði ekki slík samþjöppun.

Ég tel gersamlega óþolandi að samþjöppun sem þessi eigi sér stað. Ég þekki sjálfur hvað það er að verða fyrir þöggun og þurfa að hætta sem fastur greinahöfundur þegar vikið er að máli sem snertir eiganda viðkomandi fjölmiðils. Sá maður sem talaði á undan mér, hv. þm. Róbert Marshall, þekkir það og benti á að það væri eigandinn sjálfur sem veldi hverjir ynnu eða ynnu ekki á fréttastofu. Það segir okkur hversu grafalvarlegt mál hér er um að ræða.