136. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2008.

staða á fjölmiðlamarkaði á Íslandi.

[14:46]
Horfa

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka sérstaklega þessa umræðu sem hefur verið merkileg fyrir margra hluta sakir en undirstrika það sem ég sagði við lok minnar fyrri ræðu, að það væri varhugavert eins og þróunin er þessa dagana (Gripið fram í.) að afhenda einum aðila allan auglýsingamarkaðinn á silfurfati. Á hinn bóginn verðum við líka að huga að því hvaða tillögur eru til úrbóta til að styðja við frjálsan fjölmiðlamarkað. Við viljum ekki hafa hér eitt ríkisútvarp. Þó að mikil þörf sé fyrir því að hafa hér sterkt ríkisútvarp verðum við líka að huga að því hvaða tillögur eru raunhæfar til að halda hér uppi frjálsri fjölmiðlum þannig að það sé sagt.

Ég minni líka á það sem stóð á sínum tíma í tillögum hinnar þverpólitísku nefndar. Þar voru m.a. ákvæði um breytingu á samkeppnislögum sem hefðu þá snert einmitt samruna eins og hér er um að ræða, t.d. Árvakurs og Fréttablaðsins. Þá hefðu verið sett sérstök samkeppnislög sem hefðu tekið á þessu og við hefðum þá betur samþykkt þau lög á sínum tíma.

Um hvað snýst þetta mál í heild sinni? Það snýst auðvitað um það, frú forseti, að traust ríki í samfélaginu, að trúnaður ríki. Við þurfum að byggja samfélagið upp. Fjölmiðlar leika hér lykilhlutverk (Gripið fram í.) og þess vegna skiptir máli að við ræðum hvernig við ætlum að hafa eignarhald á fjölmiðlum, hvernig við ætlum að hafa stöðu Ríkisútvarpsins á (Gripið fram í.) auglýsingamarkaði. Við þurfum að byggja upp traust, við þurfum að byggja upp trúnað alls staðar í samfélaginu, hjá stjórnvöldum, þingi, fyrirtækjum en ekki síst á fjölmiðlunum.