136. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2008.

losun brennisteinsvetnis af manna völdum í andrúmslofti.

29. mál
[14:49]
Horfa

Flm. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um takmörkun á losun brennisteinsvetnis af manna völdum í andrúmslofti. Flutningsmenn auk mín eru þrír hv. þingmenn Vinstri grænna, Steingrímur J. Sigfússon, Kolbrún Halldórsdóttir og Árni Þór Sigurðsson.

Tillögugreinin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að setja umhverfismörk fyrir leyfilegum hámarksstyrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti. Samhliða þessu er ríkisstjórninni falið að efla rannsóknir á losun brennisteinsvetnis með því m.a. að tryggja að fram fari ítarlegri mælingar á magni þess í andrúmslofti og á fleiri stöðum. Ríkisstjórninni er jafnframt falið að tryggja að brennisteinsvetni verði hreinsað úr útblæstri jarðgufuvirkjana og að notuð verði besta fáanleg tækni til að farga eða nýta brennisteinsvetni svo að umhverfi, lífríki og heilsa fólks hljóti engan skaða af.“

Tilgangurinn með flutningi þessarar tillögu er að koma í veg fyrir heilsutjón og reyndar líka náttúruspjöll frá rekstri jarðvarmavirkjana en hvort tveggja hefur greinilega verið mjög vanmetið í mati á umhverfisáhrifum virkjananna. Það er mjög brýnt að mati flutningsmanna að áður en lengra er haldið í boðaðri stóraukinni, ágengri og ósjálfbærri nýtingu jarðvarmasvæðanna okkar, háhitasvæðanna, verði að taka til í þessum ranni, setja umhverfismörk, efla rannsóknir, fjölga mælingarstöðvum og hreinsa brennisteinsvetnið úr útblæstri jarðgufuvirkjananna.

Nýlega komu í ljós, og ég vil byrja á að vekja athygli á því, umfangsmiklar gróðurskemmdir umhverfis bæði Hellisheiðarvirkjun og Svartsengi sem sýna, eins og ég sagði áðan, hversu brýnt er að bregðast við þessu strax. Það að slíkar upplýsingar skuli ekki hafa legið fyrir þegar þessar virkjanir í Svartsengi og Hellisheiðarvirkjun voru í umhverfismati segir manni að matið á áhrifunum er langt í frá að vera rétt.

Brennisteinsvetni, H 2 S, er náttúrulegt efni sem við þekkjum sem hveralykt og veldur í rauninni efnamengun í lofti, á yfirborði og í grunnvatni. Það er margt annað sem kemur upp með jarðgufunni okkar en þessi þingsályktunartillaga fjallar einungis um þetta eina efni, brennisteinsvetnið.

Í svari umhverfisráðherra við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur á 135. löggjafarþingi kom fram að á árinu 2005 losuðu jarðvarmavirkjanir tæplega 17 þús. tonn af brennisteinsvetni og enn fremur að eftir að við hafi bæst annar áfangi Hellisheiðarvirkjunar, Hverahlíðarvirkjun og Bitruvirkjun, muni þetta vaxa í 38 þús. tonn á ári.

Í umsögn sinni um Hverahlíðarvirkjun bendir Umhverfisstofnun á að þegar, og ef, bæði Bitruvirkjun og Hverahlíðarvirkjun verða reistar verði losun brennisteinsvetnis af manna völdum orðin fimm sinnum meiri en náttúruleg losun brennisteinsvetnis frá öllum hverasvæðum landsins. Við vitum að strax og Hellisheiðarvirkjun var gangsett 1. september 2006 komu fram kvartanir undan aukinni hveralykt eða aukinni mengun af völdum blásandi hola á Hellisheiðinni og í deilum sem urðu um Bitruvirkjun, sem er fyrirhuguð í aðeins 6 km fjarlægð frá næstu húsum eða byggð í Hveragerði, kom fram að bæði skipulags- og byggingarnefnd Hvergerðinga og bæjarstjórnin sem slík lýstu miklum áhyggjum af þessum framkvæmdum við Bitru. Það endaði í því að yfir þúsund athugasemdir bárust sveitarstjórn Ölfuss vegna Bitruvirkjunar og sveitarstjórnin frestaði í kjölfarið afgreiðslu skipulags Bitruvirkjunar í byrjun september sl. Það var reyndar aðeins frestun, ekki afturköllun, það var ekki hætt við að setja Bitru á skipulag, því miður því að hún er allt of nálægt byggð í Hveragerði. Þessi áform og það að ekki skuli hafa verið fallið frá þeim heldur aðeins frestað sýna enn frekar nauðsynina á því að setja skýr umhverfismörk fyrir leyfilegan hámarksstyrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti og að efla mælingar og rannsóknir eins og tillögugreinin fjallar um.

Það vill svo til að jarðgufa í Hellisheiði er óvenjurík af brennisteinsvetni og, eins og ég sagði áðan, um leið og Hellisheiðarvirkjun var gangsett 1. september 2006 fóru að berast kvartanir, meira að segja bárust kvartanir frá kaupmönnum sem versluðu með silfurmuni við Laugaveg um að nú þyrfti að pússa silfrið, það félli of mikið á það út af brennisteinsvetninu.

Í greinargerð þessarar þingsályktunartillögu má sjá á bls. 3 hvernig brennisteinsvetni, vikumeðaltal samkvæmt mælingum á Grensásvegi, á árinu 2006, eykst um leið og virkjunin er gangsett. Loftgæði eru nú mæld á fimm stöðum á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. við Grensásveg, í Húsdýragarðinum í Reykjavík, síðan er færanleg lítil stöð sem Reykjavíkurborg hefur rekið og auk þess fara fram mælingar á loftgæðum á Keldnaholti og Hvaleyrarholti. Ég vek athygli á því að ég hef lagt fram fyrirspurn um þessar mælingar til hæstv. umhverfisráðherra og af orðalagi fyrirspurnarinnar má m.a. marka að þessi færanlega mælistöð Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar hefur lengst af í sumar verið óstarfhæf. Þegar þessir fjórir föstu mælipunktar eru upp taldir eru komnir þeir staðir sem er mælt á í Reykjavík. Það segir sig sjálft að stöðin á Grensásvegi er miklum mun fjær upptökum mengunarinnar en næsta byggð er og það er nauðsynlegt að bæta við mælistöðvum í Norðlingaholti þar sem næst er Hellisheiðinni og ekki síður í Hveragerði sem er enn þá nær Hellisheiðarvirkjun. Það þarf líka að auka rannsóknir og mælingar á útivistarsvæðunum á Hellisheiðinni vegna þess að þar fara auðvitað hundruð ef ekki þúsundir manna um á góðviðrisdögum og reyndar allan ársins hring. Þar getur mengunin verið verulega mikil.

Neðan til á bls. 3 í greinargerðinni er línurit sem sýnir niðurstöðu mælinga í lok mars, einnar viku í mars núna í vor. Því miður hefur þetta línurit ekki prentast nægilega vel en á bls. 4 má aftur sjá hvernig brennisteinsvetni mælist á Hvaleyrarholti í Hafnarfirði núna fyrstu fjóra dagana í októbermánuði. Þar kemur fram að styrkurinn rauk upp aðfaranótt 3. október og fór þá yfir 70 míkrógrömm í rúmmetra. Ég fór inn á vef Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar í dag til að skoða hver þróunin hefði verið frá þessari dagsetningu, aðfaranótt 3. október sl., og þá kemur í ljós, með leyfi forseta, eins og sjá má á þessu línuriti hér, að þrisvar sinnum hefur þessi toppur farið upp fyrir 40 míkrógrömm í rúmmetra frá þessum degi og einu sinni, þann 19. október, fór það upp í 70 míkrógrömm aftur.

Nú eru menn ekki á eitt sáttir um það hversu mjög brennisteinsvetni sé skaðlegt heilsu manna. Það er ljóst að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur fram að þessu miðað við gríðarlega hátt hlutfall sem er 150 míkrógrömm í rúmmetra á sólarhring. Þau viðmið eru nú til endurskoðunar hjá stofnuninni og hefur Umhverfisstofnun vakið athygli á því að nær væri fyrir Íslendinga að fylgja ákvörðun Kaliforníubúa sem miða við 42 míkrógrömm á klukkutíma en við það mæligildi er talið að 80% manna finni lyktina af brennisteinsvetninu, þ.e. hveralyktina.

Hvers vegna skyldi þurfa að setja umhverfismörk, hvers vegna skyldi þurfa að efla mælingar og fjölga mælingarstöðvum, hvers vegna skyldi þurfa að taka brennisteinsvetnið úr útblæstri frá jarðvarmavirkjunum? Staðreyndin er sú að brennisteinsvetni er baneitrað í miklum mæli. Það verður líka að viðurkennast að þær mælingar, styrkur efnisins, þær upplýsingar sem vitað er um hann í andrúmslofti í Reykjavík, eru ekki það miklar að hann sé talinn valda bráðri heilsufarslegri áhættu en hins vegar, eins og ég nefndi áðan, skortir mælingar í byggð þar sem hún er nærri virkjununum á Hellisheiði.

Ég vil leyfa mér að vekja athygli á því sem í greinargerðinni segir um útvarpsviðtal við Sigurð Þór Sigurðarson, lækni og sérfræðing í lungna-, umhverfis- og atvinnusjúkdómum, í nóvember 2007 þar sem hann vitnar m.a. í erlendar rannsóknir og segist hafa áhyggjur af því að börn alist upp í umhverfi þar sem magn brennisteinsvetnis sé ávallt til staðar, enda þótt það sé ekki í mjög miklum mæli. Þar kemur einnig fram að þessi mengun bitnar fyrst og fremst á lungna- og astmasjúklingum og að ýmis mengunarefni hafi mjög neikvæð áhrif á lungnaþroska í börnum. Eins og við vitum vex astma og öðrum öndunarfærasjúkdómum barna ásmegin um allan heim.

Sigurður Þór Sigurðarson sagði í þessu viðtali rétt að brennisteinsvetnið yrði fangað úr útblæstri jarðgufuvirkjananna á Hellisheiði og vildi hann með því ítreka að það er betra að hafa varann á en að komast að því eftir kannski 10–20 ár að þetta hafi verið eins skaðlegt og hann óttast. Ég tek sérstaklega undir þessi orð. Tækni til að farga brennisteinsvetni er alþekkt og á vegum Orkuveitu Reykjavíkur er ýmislegt í gangi í þeim efnum. Algengast er að brennisteinsvetnið sé notað til framleiðslu á gifsplötum en Orkuveitan leitar einnig leiða til að veita því aftur um borholur ofan í jarðhitageyminn með skiljuvatni frá virkjununum. Þá eru líka hafnar tilraunir á Nesjavöllum við að framleiða hágæðaprótínmjöl úr örverum sem nýta brennisteinsvetnið. Það er af nógu að taka, tæknin er eins og ég sagði alþekkt enda er þetta miklu meira vandamál við jarðgasvinnslu en við jarðhitavinnsluna og menn þekkja þetta í öðrum löndum.

Ég vil að lokum, frú forseti, vekja enn og aftur athygli á því að gróðurskemmdirnar uppi á Hellisheiði og í kringum Svartsengi sýna okkur að í mati á umhverfisáhrifum hafa áhrifin af brennisteinsvetninu og áhrifin af rekstri jarðgufuvirkjana verið vanmetin. Það segir manni líka að kostnaðurinn við byggingu þessara virkjana hefur verið vanmetinn þar sem ekki er gert ráð fyrir því að hreinsa brennisteinsvetnið úr útblæstrinum, sem segir aftur að arðsemi þessara veitna er væntanlega minni en menn gerðu ráð fyrir.

Ég lýsi að lokum, frú forseti, vonbrigðum mínum yfir því að (Forseti hringir.) hæstv. umhverfisráðherra sé ekki til staðar við þessa umræðu þar sem þó eru á dagskrá mörg brýn mál sem undir ráðuneyti umhverfismála heyra, (Forseti hringir.) en ég legg til að þessari tillögu verði að lokinni fyrri umr. vísað til umhverfisnefndar.