136. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2008.

friðlýsing vatnasviðs Skjálfandafljóts.

34. mál
[15:05]
Horfa

Flm. (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um friðlýsingu alls vatnasviðs Skjálfandafljóts. Auk mín eru flutningsmenn hv. þingmenn Atli Gíslason, Árni Þór Sigurðsson, Guðmundur Magnússon, Jón Bjarnason, Katrín Jakobsdóttir, Kolbrún Halldórsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson.

Hæstv. forseti. Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs flytur þingsályktunartillöguna og er hún í sama anda og svipuð þingsályktunartillögum sem fram hafa komið áður, m.a. um friðlýsingu Jökulsár á Fjöllum og Jökulsánna í Skagafirði. En þingsályktunartillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa og leggja fyrir Alþingi frumvarp til laga um friðlýsingu Skjálfandafljóts. Friðlýsingin taki til alls vatnasviðs Skjálfandafljóts ásamt þverám og verði hvers kyns röskun á náttúrulegum rennslisháttum fljótsins óheimil, svo og mannvirkjagerð. Skal friðun svæðisins stuðla að varðveislu landslags þess, náttúrufars og menningarminja ásamt því að það verði notað til útivistar, ferðaþjónustu og hefðbundins landbúnaðar. Sérstaklega skal hugað að því við undirbúning málsins hvernig friðlýsing Skjálfandafljóts geti tengst fyrirhuguðum Vatnajökulsþjóðgarði og stofnun frekari þjóðgarða eða verndarsvæða norðan jökla.“

Hæstv. forseti. Alþingi er ljóst að unnið er að rammaáætlun um verndun og nýtingu vatnsafls og jarðvarma og vonandi lýkur þeirri vinnu sem fyrst svo hægt verði að takast á um niðurstöður nefndarinnar og ná í nánustu framtíð sátt um hvaða vatnasvið og hvaða jarðvarma við ætlum að vernda til framtíðar og hvaða svæði við teljum ásættanlegt að fara inn á og nýta til virkjana, orkuöflunar eða annarra nota. En þessari vinnu er ekki lokið. Ég vona okkar allra vegna og landsins að vatnasvið Skjálfandafljóts verði á verndunarlistanum en til að taka af allan vafa tel ég mikilvægt að líta á vatnasvið Skjálfandafljóts út frá náttúruverndarsjónarmiðum og fá nýja og breytta sýn á vatn og náttúru sem auðlind og möguleika til að nota svæði eins og vatnasvæði Skjálfandafljóts til að byggja upp atvinnu til lengri tíma, t.d. ferðaþjónustu. Í greinargerðinni segir:

„Frá Vatnajökli norðvestanverðum rennur Skjálfandafljót. Fljótið á uppruna sinn í Vonarskarði, rennur norður Sprengisand og fellur til sjávar í Skjálfanda. Skjálfandafljót er 175 km langt og rennur um stórbrotið og fjölbreytt landslag á leið sinni til sjávar.“

Náttúrufegurð fljótsins, umhverfis og vatnasvæðis er einstök og þeir sem hafa farið um svæðið, hvort sem er í heild eða að hluta, segja að allir séu jafnhrifnir af því. Ég held að óumdeilt sé að svæðið er einstakt og þar má svo taka út einstaka þætti sem eru alveg sérstakir.

„Þótt fljótið sé jökulfljót er vatnið í því ekki eingöngu jökulvatn þar sem lindarvatn rennur í það í Ódáðahrauni, m.a. suður úr Suðurá og Svartá, og gengur því nokkuð upp af fiski upp í fljótið. Goðafoss, einn af þekktustu og jafnvel tilkomumestu og fegurstu fossum landsins er í fljótinu. Samkvæmt Kristni sögu á Þorgeir Ljósvetningagoði að hafa kastað heiðnum skurðgoðum sínum í fossinn við kristnitöku Íslendinga árið 1000.

Skjálfandafljót á einnig náin tengsl við sögu þjóðarinnar því nokkrum kílómetrum fyrir neðan Goðafoss kvíslast fljótið og umvefur Þingey, sem staðsett er gegnt Fellsskógi. Talið er að Þingey sé forn þingstaður héraðsins frá 963 og er þar að finna fornar minjar. Af eynni draga Þingeyjarsýslur og Þingeyjarsveit nafn sitt. Fjölmörg svæði og náttúrufyrirbæri í fljótinu og vatnasviði þess eru á náttúruminjaskrá nú þegar, m.a. Goðafoss, Aldeyjarfoss, Hrafnabjargafoss og Þingey. Ferðaþjónusta í Þingeyjarsýslum er í örum vexti og er Goðafoss meðal vinsælla áfangastaða ferðamanna, enda einungis steinsnar frá þjóðveginum. Einnig hafa verið farnar ferðir út í Þingey og uppi hafa verið hugmyndir um að gera eyna aðgengilegri fyrir ferðafólk. Þá eru vinsælar gönguleiðir meðfram fljótinu þar sem ferðamenn geta notið hinnar einstöku náttúrufegurðar.“

Ferðaþjónustuaðilar í Þingeyjarsýslum hafa litið bæði á Jökulsá á Fjöllum og Skjálfandafljót sem mikilvæga áfanga fyrir ferðamenn og vilja gjarnan byggja upp öflugri ferðaþjónustu með tilliti til náttúruskoðunar og menningarlegrar ferðaþjónustu og ég tel að umhverfi Skjálfandafljóts og saga bjóði upp á enn frekari eflingu ferðaþjónustu á svæðinu.

Önnur ástæða, hæstv. forseti, er fyrir því að tillagan er lögð fram. Mikil ásókn hefur verið í orkuauðlindir þjóðarinnar, bæði vatnsafl og jarðvarma, og ég tel að við höfum ekki alltaf sést fyrir í þeim efnum. Við höfum viljað fara nokkuð bratt í nýtinguna fyrir þá kynslóð sem nú lifir og þá næstu í staðinn fyrir að horfa til framtíðar og líta til þess hvort kynslóð okkar hafi ein rétt á því að nýta auðlegðirnar sem landið gefur okkur. Hvort okkur beri ekki skylda til að vernda og skilja eitthvað eftir handa komandi kynslóðum til að nýta til orkunotkunar, ef á þarf að halda.

Í áformum sem hafa verið uppi hafa orkufyrirtæki litið til Skjálfandafljóts, og það fleiri en eitt og fleiri en tvö, og uppi hafa verið hugmyndir um að virkja á svæðinu. Ég tel að mjög varlega eigi að fara í undirbúning að öllu slíku. Efla þarf rannsóknir á svæðinu með tilliti til náttúrufars og sögu og kortleggja grunnrannsóknirnar vel áður en farið verður út í rannsóknir sem beinast eingöngu að orkuöflun. Til þess þarf fjármagn og ég tel að fjármunum sé betur varið í grunnrannsóknir á náttúrufari og náttúruauðlindum í Þingeyjarsýslum sem grunn að fjölbreyttri atvinnustarfsemi en rannsóknir sem miðast eingöngu við stóriðju og orkunotkun af mikilli stærðargráðu, en tímabært og nauðsynlegt er að leggja þær af. Við flutningsmenn teljum þarft að Alþingi taki af skarið í því að friðlýsa vatnasvið Skjálfandafljóts og eðlilegt er að láta nú reyna á yfirlýsingar sem fallið hafa á undanförnum mánuðum og missirum um vilja til að ekki verði hróflað við Skjálfandafljóti. Ekki er nóg að lýsa yfir að vilji sé til að vernda Skjálfandafljót og gefa yfirlýsingar um að ekki eigi að sækja orku í Skjálfandafljót fyrir stóriðju á Norðausturlandi en fara fyrr í háhitasvæðin og aðra virkjunarkosti. Eftir sem áður eru þessar rannsóknir í gangi og beiðnir orkufyrirtækja um að rannsaka ákveðin svæði Skjálfandafljóts með tilliti til orkuöflunar til virkjana.

Mörgum er umhugað um að vernda svæðið og stofnuð hafa verið samtök sem beita sér eingöngu fyrir verndun Skjálfandafljóts og hafa opnað heimasíðu með góðum greinum og kynningu á svæðinu. Því eins og þingheimur veit eru mörg falleg og undraverð svæði á Íslandi sem liggja það fjarri þjóðveginum að ekki fara allir inn á þau til að skoða og svæði sem við höfum ekki séð og kynnst verða oft ekki eins merkileg í huga okkar og önnur. Því er mikilvægt að kynna vel svæði sem vitað er að þarf að vernda og ganga vel um. Ekki eru til margar eða miklar bókmenntir um Skjálfandafljót og náttúrufar í kringum það, en nokkrar greinar hafa verið skrifaðar og ferðafélagsbækur hafa tekið svæðið fyrir. Ég hef ekki fundið rit og rannsóknir sem hafa eingöngu fjallað um svæðið en tel að með friðlýsingunni gefist einstakt tækifæri til að horfa á vatnasviðið í heild og einbeita sér að rannsóknum á því öllu.

Bændur í Svartárkoti og í Þingeyjarsýslum hafa stofnað til og eflt menningarsetrið Svartárkot þar sem unnið er að rannsóknum og kynningu á náttúrunni. Mjög ánægjulegt er þegar atvinna er styrkt og aukin með því að koma á menningarsetrum og rannsóknarsetrum eins og Svartárkoti og ef hlúð er að þeim geta þau orðið mun öflugri.

Hæstv. forseti. Ég legg til að þingsályktunartillögu um friðlýsingu alls vatnasviðs Skjálfandafljóts, allt frá Vatnajökli og norður í Skjálfanda, verði vísað til hv. umhverfisnefndar að loknum þessum umræðum.