136. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2008.

friðlýsing vatnasviðs Skjálfandafljóts.

34. mál
[15:19]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Mig langar til þess að segja nokkur orð um þetta ágæta mál sem hér er framkomið sem mér finnst áhugavert að mörgu leyti. Hv. þingmenn sem það flytja eru þeirrar skoðunar að friðlýsa eigi þetta svæði sem kemur ekki á óvart því svæðið er mjög fallegt og býður upp á margt að mínu mati. Ég get því lýst því yfir hér að ég tel að þetta sé allt saman athugunarvert og vil segja að það eru ekki uppi áform um að virkja þarna, það ég best veit. Ég veit t.d. að fyrirtækið Alcoa sem hefur áhuga á að byggja álver við Húsavík hefur ekki sýnt áhuga á því að orkan komi úr hugsanlegri virkjun í fljótinu sem væri þá Hrafnabjargavirkjun. En hún er ein af þeim virkjunum sem er til umfjöllunar í sambandi við rammaáætlun og miklu fleiri virkjunarmöguleikar sem ekki endilega endast sem virkjanir heldur er það rannsóknarstarf sem þarna fer fram. Þess vegna eru þessir möguleikar bornir saman með ýmislegt í huga, nýtingu eða ekki nýtingu.

Þetta mál er mér dálítið kært og svæðið er mér kært. Ég á heima í stuttri fjarlægð frá Bárðardalnum og hef þekkt þetta svæði alla mína ævi og tel að það sé einstaklega fallegt frá náttúrunnar hendi. Eins og kom fram hjá framsögumanni þá býður það upp á möguleika í sambandi við ferðaþjónustu sem vissulega eru mikið nýttir nú þegar en þar eru eflaust frekari tækifæri sem þarf að huga að.

Svo er það Þingey, eyjan sem á mikla sögu og ég er einmitt félagi í hinu þingeyska fornleifafélagi sem er að rannsaka eyna. Þar hefur ýmislegt athyglisvert komið í ljós og örugglega á margt fleira eftir að koma í ljós. Þarna hefur t.d. fundist vorþingstaður. Alþingi hefur verið rausnarlegt í sambandi við fjárveitingar til þessa rannsóknarstarfs og ber að þakka það. Í ár fékk félagið 10 millj. kr. og þær nýttust ákaflega vel.

Svo má nefna fræðasetrið sem er tengt við Svartárkot. Þar er fyrirhuguð starfsemi sem er að hefjast en er ekki komin langt á veg. Þó hefur í tvö sumur verið stundað þar mjög áhugavert fræðastarf og margir útlendingar hafa komið til þess að taka þátt í því.

Ég kveð mér hér hljóðs vegna þess að ég tel að þetta mál sé allrar athygli vert um leið og ég minni á það starf sem fer fram í tengslum við rammaáætlun. Það mun að sjálfsögðu verða fjallað um þetta svæði eins og önnur og þá virkjunarmöguleika sem þar eru þó svo að ég viti ekki til, eins og ég sagði áðan, að uppi séu áform um að ráðast í neinar slíkar framkvæmdir á þessum slóðum.