136. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2008.

friðlýsing vatnasviðs Skjálfandafljóts.

34. mál
[15:24]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég vil bara örstutt fagna þeirri tillögu til þingsályktunar um friðlýsingu alls vatnasviðs Skjálfandafljóts sem hér hefur komið fram. Allir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs eru flutningsmenn tillögunnar og hv. þm. Þuríður Backman, 1. flutningsmaður hennar, hefur gert hér ítarlega grein fyrir henni.

Ég vil líka lýsa ánægju minni með jákvæðar undirtektir hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur sem af mörgum hefur þótt nokkuð áhugasöm og hefur, að margra mati, farið fram úr sér í áhuga sínum á virkjunum, stóriðjudraumum og framkvæmdum. En það er mjög mikilvægt hvar sem við drögum mörkin þar að við stöndum vörð um náttúruperlur, síkvikar, sílifandi náttúruperlur eins og jökulárnar eru, Jökulsárnar í Skagafirði, Skjálfandafljót, Jökulsá á Fjöllum o.fl. Þetta eru lífæðar og í orðsins fyllstu merkingu, ekki aðeins á landi heldur einnig í sjó. Áhrif framburðar og blöndunar efna við hafið fyrir ströndum landsins mynda hið síkvika líf og við megum ekki grípa þar inn í nema að mjög vandlega athuguðu máli. Tillagan um friðlýsingu alls vatnasviðs Skjálfandafljóts er virkilega tímabær. Við vitum að það hafa verið uppi áform um virkjanir á einstökum stöðum í fljótinu sjálfu eða í aðrennslisám. Þess vegna er mikilvægt að við getum dregið þarna varnarlínu um Skjálfandafljótið.

Það er líka ánægjulegt að það hefur verið stofnaður áhugahópur heimamanna um friðlýsingu Skjálfandafljóts. Heimamenn gera sér auðvitað langbesta grein fyrir því hversu dýrmæt náttúruauðlind Skjálfandafljótið er, óspjölluð, fyrir samfélagið bæði í nútíð og til framtíðar. Áhugahópurinn hefur sett á fót vefsíðu með upplýsingum, greinum og möguleika á stuðningsyfirlýsingum, að skrifa undir stuðning við friðun og friðlýsingu Skjálfandafljóts og vatnasviðs þess, á skjalfandafljot.is. Í stefnuyfirlýsingu hópsins segir, með leyfi forseta:

„Stofnaður hefur verið áhugahópur um friðlýsingu Skjálfandafljóts. Það er markmið hópsins að vinna að friðlýsingu alls vatnasviðs Skjálfandafljóts, stuðla að friðun og varðveislu landslags þess, náttúrufars og menningarminja ásamt því að það verði notað til útivistar, ferðaþjónustu og hefðbundinna nytja.“

Þarna er fyrst og fremst verið að standa vörð um hefðbundna stöðu vatnasviðs Skjálfandafljóts. Á heimasíðu þessa ágæta öfluga félagsskapar er að finna greinar, upplýsingar og kynningu á náttúrufari, sögu og ýmsu mjög áhugaverðu og athyglisverðu.

Hliðstæður hópur var stofnaður fyrir einum þremur árum, áhugahópur um verndun vatnasviðs jökulánna í Skagafirði. Ég er viss um að fyrir atbeina þess fólks sem þar steig fram tókst að stöðva áform um virkjanir í jökulsánum í Skagafirði, að þær yrðu stíflaðar og virkjaðar og þeim þannig spillt. Hlutverk hópsins var ekki síst að kynna þá dýrmætu fjársjóði sem fólust í fljótunum eins og þau voru. Þar er rekin öflug ferðaþjónusta, fljótasiglingar, en fljótin móta líka ásýnd og ímynd heils héraðs auk þess að móta lífríki frá fjalli til sjávar.

Ég vildi bara, frú forseti, árétta hversu mikilvægt það er að við stöndum vörð um þessar auðlindir okkar, þessar náttúruperlur. Við höfum séð hvernig þær hafa lotið í gras fyrir virkjunaræðinu, hver á fætur annarri. Slagurinn stendur núna m.a. um Þjórsá. En við viljum vernda jökulárnar okkar, Jökulsárnar í Skagafirði, Skjálfandafljót og svo mætti áfram telja. Það er ánægjulegt að það skuli vera komnir upp áhugahópar heimamanna til að vernda þessar ár, eins og hér hefur verið greint frá. Það liggur líka fyrir þinginu tillaga til þingsályktunar um friðlýsingu vatnasviðs jökulánna í Skagafirði sem flutt var á síðastliðnum vetri undir sömu formerkjum og hér er gert varðandi vatnasvið Skjálfandafljóts.

Ég vona að það verði þverpólitísk samstaða um að þessi þingsályktunartillaga nái fram að ganga og Alþingi geti stolt kynnt samþykkt sína um tillögu til þingsályktunar um friðlýsingu alls vatnasviðs Skjálfandafljóts.