136. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2008.

hámarksmagn transfitusýra í matvælum.

45. mál
[16:06]
Horfa

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða hér tillögu til þingsályktunar um setningu reglna um hámarksmagn transfitusýra í matvælum. Ég vil byrja á því að þakka hv. 1. flutningsmanni, Siv Friðleifsdóttur, fyrir að endurflytja þetta mál sem er mjög mikilvægt. Ég hef verið með hv. þingmanni á þessu máli frá því að hún flutti það fyrst, á síðasta þingi.

Það hefur líka verið mjög fróðlegt að hlusta á umræðuna og heyra þá umfjöllun sem málið hefur fengið hér. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hélt lærðan fyrirlestur um þetta mál og hversu transfitusýrur er slæmar heilsunni og hvenær umbreyting á fitusýrum hófst, 1911 með Crisco sem fékk fyrsta einkaleyfið. Ég minnist þess að í gegnum tíðina hefur sú fita verið mikið auglýst, geysilega mikið, og þessi herta fita hefur orðið hluti af matarmenningu og matreiðslu á heimilum, ekki bara hér á landi heldur víða í heiminum, þessu hefur verið haldið mjög að þeim sem annast matargerð. Í ljósi þess er öll umræða um hættuna af notkun þessara hertu fitusýra geysilega mikilvæg.

Eins og bent hefur verið á eykur þetta hættu á ýmsum sjúkdómum, blóðtappa, hjarta- og æðasjúkdómum og kannski er það rétt eins og kom fram í umræðunni að ástæðan fyrir því að við höfum ekki farið verr út úr notkun þessara transfitusýra hingað til er að hér tekur fólk almennt lýsi sem vinnur gegn áhrifum þessara fitusýra. Engu að síður er geysilega mikilvægt að settar verði reglur um þetta og það fellur undir verksvið sjávar- og landbúnaðarráðherra að setja slíkar reglur þar sem matvælamál heyra undir þann ráðherra. Vissulega er þetta stórt heilbrigðismál. Þetta er forvarnamál sem fellur undir heilbrigðismál og þess vegna er eðlilegt að heilbrigðisnefnd fái málið til umsagnar og veiti landbúnaðar- og sjávarútvegsnefnd umsögn um það.

Hér hefur verið farið vel yfir hvernig þróunin hefur verið. Ísland hefur staðið sig illa og í greinargerðinni er listi yfir það hvar við stöndum í samanburði við aðrar þjóðir. Við erum óhugnanlega ofarlega á þeim lista. Þó hefur þróunin verið jákvæð, við höfum minnkað notkunina um þriðjung á undanförnum tveimur árum, bakararnir eru hættir að nota þessa fitu eins og bent var á í yfirlýsingu Jóa Fel.

Það er verið að leggja á ráðin um að setja svona reglur víða, t.d. leggur Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, WHO, til að þjóðir fari ekki yfir 2 grömm á dag. Norðurlandaráð samþykkti í síðustu viku þingmál af þessu tagi þar sem lagt er til að farin verði danska leiðin sem útskýrð er í greinargerðinni og það er sú leið sem við hv. þingmenn, flutningsmenn sem standa að þessu máli leggjum til. Norðurlandaráð gefur þjóðum eða ríkisstjórnum fimm ár til þess að koma þessu á. Við eigum ekki að þurfa að bíða svo lengi, við ættum að geta samþykkt þetta þingmál á þessum vetri, þetta á ekki að kosta neitt. Þetta er þingsályktunartillaga um að setja reglur og það er verið að benda á aðra leið en Bandaríkjamenn hafa verið að fara með merkingum því að merkingarnar eru dýrar og það eru margir sem ekki lesa merkingar á matvælum og því er mun árangursríkara að setja reglur.

Öll umræða er líka mikilvæg, að fólk geri sér grein fyrir því hvaða áhrif neysla á vörum með þessum fitusýrum í hefur á heilsuna. Það eru djúpsteiktu vörurnar og óhollusta alls konar. Við höfum bent á þetta í umræðu um offitu, þetta eru einmitt efnin sem leiða til hennar, djúpsteiktar skyndibitavörur og í ljósi þess er náttúrlega sérstaklega mikilvægt að við tökum á þessum málum. Kostnaður í heilbrigðiskerfinu fer síhækkandi, sérstaklega vegna aukinna hjarta- og æðasjúkdóma og fleiri sjúkdóma sem slíkur lífsstíll, mikil neysla á skyndibitamat, hefur í för með sér. Við þurfum því að grípa til allra ráða til þess að koma í veg fyrir að fólk fái þessa sjúkdóma. Við þurfum að efla lýðheilsu, sérstaklega í dag þegar illa árar í efnahagslífinu og við þurfum að leita allra leiða til þess að spara og gera fólki lífið léttbærara og auka heilbrigði. Einmitt þá þurfum við að taka á þessum málum. Það skiptir máli hvað við borðum, það skiptir máli hvernig við högum lifnaðarháttum okkar og það er einmitt það sem við erum að benda á hér.

Bandaríkjamenn hafa tekið upp merkingar á matvælum en heilbrigðisnefnd New York borgar hefur, eins og getið er um í greinargerð með tillögunni, bannað notkun transfitusýra á veitingastöðum frá því í júlí 2007, sem er ákaflega jákvætt. Við eigum auðvitað að fara sömu leið og banna notkun þeirra á veitingastöðum þar sem fólk getur ekki fylgst með því hvaða efni eru í þeim mat sem það neytir.

Mig langar að nefna eina athugasemd sem okkur flutningsmönnum þingmálsins hefur borist, hún er frá ísframleiðendum, Kjörís, sem bentu okkur á að það þyrfti að skoða notkun transfitusýra í ís. Þar var okkur bent á að transfitusýrur væru ekki allar jafnslæmar. Ég tel rétt að sú nefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar skoði þær athugasemdir sem komið hafa fram hjá þessum framleiðanda og kanni hvort þarna er eitthvað á ferðinni sem þurfi að taka tillit til þegar slíkar reglur verða settar. Ég nefni það hér vegna þess að þessi athugasemd hefur borist okkur.

Ég vil fagna því að þetta mál er komið fram og hvetja þá sem eiga sæti í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd til að afgreiða það, þetta er á allan hátt til bóta fyrir okkur öll.