136. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2008.

Seðlabanki Íslands.

50. mál
[16:35]
Horfa

Karl V. Matthíasson (Sf):

Frú forseti. Hér er verið að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands þar sem gert er ráð fyrir að fram fari fagleg ráðning í embættið og tel ég það vera hið besta mál. Reynslan hefur sýnt að ráðning í stöðu seðlabankastjóra, úr hvaða flokki sem þeir hafa verið, hefur alltaf verið umdeild en þetta embætti þarf að vera þannig að svo sé ekki og sama gildir um þá sem hafa setið í bankaráðum seðlabankans. Ég gæti talið upp fjöldann allan af bankastjórum, t.d. gömlum alþýðubandalagsmönnum og bankaráðsmönnum úr öðrum flokkum, framsóknarmönnum og fleirum en ég læt það ógert.

En með þeim breytingum sem orðið hafa á samfélaginu að undanförnu þá er orðin meiri krafa um að menn hafi að leiðarljósi sanngirni og menn hafi að leiðarljósi almennilegt siðferði og réttlæti. Mér finnst þetta vera angi af því. Eins er með allar þær stöður sem menn koma til með að þurfa að veita vegna hinna miklu breytinga. Auðvitað gerir samfélagið kröfu um að það sé gert á faglegan og réttlátan hátt. Þetta hlýtur í raun að ná til allra stofnana samfélagsins og félaga, meira að segja verkalýðsfélaga sem ráða menn í störf og til stjórnmálaflokka, skóla, kennara og allt hvað eina. Það er því mjög gott að þetta frumvarp kemur fram, það vekur okkur til umhugsunar um þessa hluti.

En að halda því fram að Samfylkingin hafi ekki verið til staðar, ég skildi ekki alveg hvað það kom þessu máli við þegar hv. þm. Álfheiður Ingadóttir var að tjá sig áðan. Ég ætlaði reyndar að fara í andsvör en það misskildist aðeins og því held ég þessa stuttu ræðu á undan en ég hvet hv. þingmann til að fara yfir þau mál og þau atriði sem hefur verið unnið að á vegum ráðherra Samfylkingarinnar í sambandi við það sem lýtur að velferðarmálum, félagsmálum og öðru því sem hefur verið til góðs fyrir fólk. Ég ætla hins vegar ekki að tjá mig um það hvort það sé hægt að gera allt algerlega eins og allir vilja. Það getur reynst erfitt en menn reyna að gera sitt besta. Við erum nú komin í þá stöðu að við verðum að vera í miklu varnarstarfi fyrir atvinnuleysingja, fyrir öryrkja og gamalt fólk, aldraða og sjúklinga, fólk sem á undir högg að sækja. Ég held því fram að Samfylkingin muni gera allt sem í hennar valdi stendur því fólki til góðs.