136. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2008.

Seðlabanki Íslands.

50. mál
[16:39]
Horfa

Flm. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim þingmönnum sem hafa tekið til máls og þakka þann stuðning sem þeir lýstu yfir við frumvarpið. Ég geri mér vonir um að það nái fram að ganga en átta mig engu að síður á að þetta er þingmannafrumvarp. Eitt óttast ég sérstaklega og það er að þó að Samfylkingin hafi tekið undir þetta, bæði í þingsal og svo í fjölmiðlum, bókað á ríkisstjórnarfundum, þá er hún við völd og hún framkvæmir einfaldlega ekki í samræmi við þau orð sem hún lætur svo almenning heyra. Í mínum kokkabókum heitir þetta bara að tala upp í eyrað á fólki eða að hrópa á torgum.

Stýrivaxtaákvæði Seðlabankans og þjóðnýting Glitnis eru gríðarlega umdeildar ákvarðanir og nutu í rauninni ekki trausts vegna þess að almenningur, greiningarfyrirtæki og fjármálalífið, fékk það á tilfinninguna að þær væru teknar á einhverjum öðrum forsendum en faglegum. Það gengur einfaldlega ekki. Auðvitað snýst þetta núna um atvinnuleysi og um það að fólk hefur það miklu erfiðara. Það er gott að Samfylkingin segist ætla að vinna að hag öryrkja og þeirra sem um sárt eiga að binda en hún er í ríkisstjórn, ekki Framsóknarflokkurinn eða Vinstri grænir. Þess vegna er það eina sem við flutningsmenn þessa frumvarps getum gert er að óska eftir að frumvarpið nái fram að ganga og að þeir sem eru í ríkisstjórn og taka undir með okkur fylgi því eftir.

Að öðru leyti þakka ég umræðurnar sem hafa farið fram. Ég hefði að vísu kosið að þær hefðu verið fjörlegri og aðeins öflugri, ég tala ekki um af hálfu ríkisstjórnarflokkanna, en það er víst ekki á allt kosið í þeim efnum.