136. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2008.

Seðlabanki Íslands.

50. mál
[16:42]
Horfa

Karl V. Matthíasson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson talaði um að Samfylkingin segðist ætla að gera eitthvað í sambandi við atvinnuleysið. Ég skora á þingmanninn að kynna sér það sem hefur verið gert, t.d. neyðarsímann sem félagsmálaráðuneytið hefur komið upp, kynna sér þær viðbætur sem hafa verið lagðar í Ráðgjafarstofu heimilanna og kynna sér þá vinnu sem er í gangi og undirbúning vegna þess fjölda fólks sem horfir fram á gjaldþrot ef ekkert verður að gert. Ég skora líka á hv. þingmann að kynna sér þær tillögur sem hafa komið í samræmi við greiðsluaðlögun og jafnvel lög sem ég held að hæstv. viðskiptaráðherra hafi lagt fram.

Mér finnst það líka vera svolítið — ég ætla ekki að koma með nein lýsingarorð, ég er ekki alveg sáttur við það að þingmaðurinn skuli tala í þá veru um ástandið að gefa í skyn að Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn standi fyrir því. Allir atburðir eiga sinn aðdraganda og við getum velt fyrir okkur aðdraganda þeirrar stöðu sem samfélagið er í í dag. Þá getum við velt fyrir okkur hvar sú skrúðganga byrjaði og hverjir eru búnir að vera hvað duglegastir að ganga í þeirri skrúðgöngu, t.d. í einkavæðingu, í einkavæðingu Búnaðarbankans m.a. Ég get nefnt ótal mörg dæmi sem ég læt hjá líða í sambandi við einkavæðinguna og það sem sumir kalla í dag græðgisvæðinguna. Ég held að menn eigi ekki að vera að kasta grjóti úr glerhúsi.