136. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2008.

áfengislög.

54. mál
[16:55]
Horfa

Karl V. Matthíasson (Sf):

Frú forseti. Rætt er um frumvarp til laga um breytingu á áfengislögunum og eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson gerði grein fyrir fjallar málið um að ekki sé hægt að birta áfengisauglýsingar eða auglýsingar á vöru sem á ekki að vera áfengi en er það samt. Ég hef orðið vitni að því, frú forseti, að unglingar eða — svo ég haldi nú öllu til haga — drengur sem ég þekki mjög vel kom til mín og sagði: „Heyrðu, í sambandi við eina bjórauglýsinguna.“ Ég segi við drenginn: „Heyrðu, bjórauglýsingu, það er bannað að auglýsa bjór hér á Íslandi.“ „Nei, það var þarna í sjónvarpinu, það var bjórauglýsing, það var verið að segja frá einhverjum köllum sem voru í kulda og eitthvað svona.“ Þetta sagði þessi ungi drengur, 14 ára gamall, við mig. Þannig skildi hann þessa auglýsingu, frú forseti, hún var ekkert annað en bjórauglýsing. Þeir sem horfðu á auglýsinguna voru hvattir til að drekka bjór.

Við vitum að í bjór er efni sem heitir alkóhól og það fer mjög illa með marga og skaðlegt er fyrir ungmenni að neyta þess, það hefur reynslan kennt okkur. Við þurfum ekki annað en að lesa fréttir liðinna mánaða, vikna, og ára til að sjá að áfengisneysla kemur oft við sögu þegar vandræði, vesen, erfiðleikar og þjáningar hrjá fólk og oft þegar menn eiga í erjum. Því styð ég tillöguna og er meðflutningsmaður hennar vegna þess að ég vil gera allt sem hægt er til að draga úr neyslu alkóhóls.

Á fræðslukvöldum og samkomum með ungmennum er talað um að reyna að tefja þau, reyna að fresta drykkjunni um eitt ár enn, frú forseti. Af hverju er aldrei sagt: Það er allt í lagi að lifa lífi án áfengis? Þurfa allir unglingar sem fæðast hér á landi að bíða spenntir eftir því? Já, núna þegar ég verð 18 ára þá á ég að drekka — reyndar er það ólöglegt — eða: Þegar ég verð tvítugur eða tvítug þá má ég drekka og ég hlakka til að ná þeim aldri að ég geti drukkið alkóhól.

Frú forseti, sú mynd er dregin upp að alkóhólneysla sé eitthvað eftirsóknarvert og maður eigi að hlakka til og fresta því að byrja að drekka. Ekki er sagt: Ég ætla að lifa lífi án áfengis. Ég veit hvaða glötun alkóhólneysla hefur leitt yfir margar þúsundir manna.

Ég sá í fréttunum í gær, frú forseti, að dauðsföllum vegna lifrarskemmda hefur fjölgað á Íslandi. Það er hægt að rekja beint til þess að drykkjumunstur og svokölluð vínmenning þjóðarinnar hefur breyst frá því að menn fóru á stór fyllerí um helgar — svo ég orði það þannig — og drukku brennivín, vodka og slíkar tegundir. Nú er siðmenningin komin og fólk drekkur meira bjór og rauðvín með mat, en í rauðvíni er alkóhól. Í hverjum dropa af rauðvíni eru 11% af hreinu alkóhóli. Efnið fer inn í líkama fólks og líkaminn þarf að vinna úr því sem er mjög erfitt og gerir að verkum að lifrin eyðileggst. Nú sjáum við skýrslur um að fólk deyi vegna skorpulifrar, þetta eru staðreyndir. Þegar við leyfðum bjórinn á sínum tíma varð það til þess að alkóhólneysla þjóðarinnar jókst. Þegar vínmenningin kom með léttvínum og svokölluðum borðvínum — sem sumir eru svo ósvífnir að kalla matvöru — jókst alkóhólneyslan og menn sötra rauðvín og bjór miklu meira en sterku vínin áður.

Frú forseti. Við þurfum að gera allt sem við getum til að draga úr þessu, bæði gagnvart börnum og unglingum og leggja áherslu á að líka sé hægt að lifa án alkóhóls. Það er hægt að ganga í gegnum lífið án þess að nota alkóhól og vera hamingjusamur og glaður og elska tilveru sína án þess að þurfa að hlakka til að eiga lög við Bakkus. Þannig er það, frú forseti.

Ég gleðst yfir því að frumvarpið skuli vera lagt fram því það vekur umræðu um þessi mál og vekur okkur líka til umhugsunar um hvernig líf okkar eigi að vera, um hvað það eigi að snúast? Eigum við að vera heil, eigum við að vera ósködduð, eigum við að taka inn efni sem fara í heilann, gera slæma hluti og valda því að fólk missir dómgreind og lendir í alls konar vandræðum og veseni, lögbrotum og ljótum málum?

Frú forseti. Talað er um að íþróttaiðkun hafi forvarnagildi, en ég hef rekið mig á að í samfélagi okkar, og reyndar öðrum samfélögum, hópast fólk saman til að drekka alkóhól og horfa á íþróttir. Þetta finnst mér vera mótsögn. Á sumum íþróttavöllum og jafnvel á íþróttabúningum frægra félaga eru hreinar og beinar áfengisauglýsingar. Þá spyr maður sjálfan sig: Þeir íþróttamenn sem auglýsa alkóhól, bjór og svona, ætli þeir fái sér tvo, þrjá létta bjóra, eins og kallað er, eða sterka jafnvel — Elefant, eða hvað þetta nú heitir — áður en þeir hlaupa inn á völlinn til að keppa? Ég er hræddur um að það rími alls ekki við allt það sem talað er um í sambandi við forvarnagildi íþrótta.

Þegar talað er um forvarnir má ekki gleyma listnámi, tónlist. Forvarnir eru líka í tónlistarnámi og í myndlistarnámi og hvers kyns andlegri og góðri iðkun. Á þetta þurfum við að leggja meiri áherslu.

Ég vona, frú forseti, að þetta frumvarp verði að lögum fyrr en síðar og fólk gefi sér tíma til að velta fyrir sér hvers vegna það drekkur og af hverju alkóhól er svona nauðsynlegt. Er það vegna þess að fólkið er undir stjórn áfengisins eða þess að fólkið stjórnar drykkjunni?