136. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2008.

Störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarna Harðarsyni, sem ekki er óróaseggur í Framsóknarflokknum, fyrir. Fjárlaganefnd hefur starfað á þessu hausti, svo að ég víki að því. Hv. þm. Bjarni Harðarson hefur mætt þar á fundi eins og flestir aðrir og á að vera að vinna að þeim verkum sem lúta að fjárlagafrumvarpinu. Hver og einn fjárlaganefndarmaður á að vera að fara yfir frumvarpið jafnframt því sem við höfum farið yfir það á fundum fjárlaganefndar.

Ég ætla í sjálfu sér ekki að víkja neitt frekar að þessum yfirlýsingum. Vil þó einfaldlega benda á að niðurstöður skoðanakannana tala fyrir sig. Hv. þingmaður vék að því að Glitnir héldi úti ESB-trúboði á vegum ríkisins. Ég tel það ekki rétt. Greiningardeildir bankanna og ýmsir aðrir fjalla um Evrópumál og um lýðræðismál. Ég tel augljóst að þjóðin vill fá að taka mikilvægar ákvarðanir í Evrópumálum, og þá sem fyrst, algerlega óháð afstöðu einstakra stjórnmálamanna eða stjórnmálaflokka. (GMJ: Þau eru svo sammála í ríkisstjórninni.) Það mun verða gert á lýðræðislegan hátt og sá tími mun einfaldlega koma að við munum standa frammi fyrir því.

Ég hef talað fyrir því í áratugi. Jafnvel þegar ég var með hv. þm. Grétari Mar Jónssyni í Alþýðuflokknum (GÁ: Hvernig er stjórnarsáttmálinn?) minnir mig að við höfum báðir talað fyrir því.

Ég þakka hv. þm. Bjarna Harðarsyni fyrir skýr svör um stefnu Framsóknarflokksins í Evrópumálum. Þau hafa komið fram á þinginu. Vert er að geta þess að ég ætla ekki að hafa áhrif á þá stefnu heldur mun Framsóknarflokkurinn gera það mál upp við sig eins og allir aðrir flokkar.