136. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2008.

Störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Mig langar að víkja að hlutverki þingsins í núverandi efnahagsástandi. Segja má að þó að hér hafi verið tvær umræður um efnahagsmál hafi þinginu verið haldið utan við alla ákvarðanatöku. Einstakar nefndir hafa vissulega tekið málin til umfjöllunar, viðskiptanefnd, efnahags- og skattanefnd og fjárlaganefnd, aðallega þó til að fá upplýsingar. Þegar kemur að því að leggja til aðgerðir til að bregðast við ástandinu fer sú umræða fram hjá ráðherrum ríkisstjórnarinnar, hjá framkvæmdarvaldinu, ekki í nefndum þingsins sem eru aðallega í því að kynna sér málin.

Ég beini máli mínu til hv. þm. Péturs Blöndals sem er formaður efnahags- og skattanefndar. Hann hefur að mínu mati staðið sig mjög vel því að hann hefur brugðist mjög vel við óskum okkar um fundi og boðað fundi um nýlega stýrivaxtahækkun og líka um efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar þegar hún mun liggja fyrir eftir afgreiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á föstudaginn. Ég velti því hins vegar fyrir mér hvort ekki þurfi að efla hlutverk efnahags- og skattanefndar og þingsins alls við að taka ákvarðanir, ekki bara að kynna sér málin og votta svo ákvarðanir sem má segja að þegar hafi verið teknar.

Hefði það ekki átt að vera hlutverk þingsins að móta þessa efnahagsáætlun fyrir þjóðina? Mig langar að fá álit formanns efnahags- og skattanefndar á því, og annarra þingmanna ef þeir vilja, hvort efnahags- og skattanefnd eigi ekki að gegna forustuhlutverki í þessu starfi. Er Alþingi fyrst og fremst umræðuvettvangur eða tekur það raunverulegar ákvarðanir? Virkar það eins og búðarkassi þegar einhver annar hefur fyllt körfuna? Mér þætti vænt um að fá álit fólks undir þessum lið, Störf þingsins, í stað þess að nota hann til að ræða innanflokksmál Framsóknarflokksins. Ég held að það skipti verulegu máli fyrir okkur sem hér sitjum hvert okkar hlutverk á að vera þegar kemur að raunverulegum ákvörðunum.