136. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2008.

Störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Það er hárrétt ályktun hjá hv. þingmanni að hlutverk þingsins hefur verið ótrúlega veikt. Það á að vera miklu sterkara. Hlutverk þingsins er að setja lög, setja ramma utan um þjóðfélagið og það á að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Þetta er hlutverk þingsins fyrir utan fjárveitingar. Við erum þeir aðilar í þjóðfélaginu sem setjum lög og við eigum að standa okkur í þeirri kreppu sem nú ríður yfir þjóðina, við eigum að setja þann ramma sem nú þarf að breyta. Það er alveg greinilegt að lagasetningin hefur brugðist, hún er reyndar að miklu leyti tekin frá Evrópusambandinu, og eftirlitið og eftirlitsstofnanir hafa brugðist. Þess vegna erum við í þeirri hræðilegu stöðu sem þjóðin er í í dag.

Að mínu mati þurfum við fyrst og fremst að gæta að því að atvinna haldist í landinu. Það er forsenda þess að heimilunum vegni vel og við þurfum líka að gæta að þeim. Við þurfum að gæta að velferð, setja ný lög um velferðarmál, við þurfum að gæta sérstaklega að börnunum. Við þurfum að gæta að þeim sem voru ofsaríkir en eru orðnir sárafátækir, það er líka mikið áfall. Við þurfum að milda gjaldþrot og við þurfum að milda stöðu heimilanna. Við þurfum svo að horfa til framtíðar en fyrst af öllu þurfum við að læra af því sem fór úrskeiðis.

Lagasetningin um gagnkvæmt eignarhald fór úrskeiðis. Lögin eru allt of víðtæk og þarf að stöðva það. Það er að vísu alþjóðlegt fyrirbæri en við getum haft ákveðið frumkvæði í að reyna að bremsa það niður. Svo þarf að gæta að hlutum eins og jöklabréfunum sem skella nú yfir þjóðina eins og jöklaskriða og þrýsta genginu niður endalaust, þessi jöklabréf sem við nutum í nokkur ár. Við þurfum líka að gæta að Icesave-fyrirbærinu sem er evrópsk lagasetning.