136. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2008.

Störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég held að ég og hv. þm. Pétur Blöndal séum í prinsippi sammála um að þingið þarf að vera öflugra. Ég spyr: Hvað gerum við nú? Svo að dæmi sé tekið hefur ákvörðun verið tekin um stýrivaxtahækkun og var margoft farið yfir það í umræðum um efnahagsmál í síðustu viku, eða hvenær sem það var, hver hefði tekið þá ákvörðun, menn voru ekki á eitt sáttir um það. En ég tók eftir því að menn voru ekki heldur á eitt sáttir í þinginu, sama hvar í flokki þeir stóðu, um hvort sú vaxtahækkun væri endilega það sem þyrfti. Þess vegna fer efnahags- og skattanefnd að funda um hana.

Við þurfum að ræða um það í þinginu hvort þær ákvarðanir sem eru teknar hér og nú, og hafa áhrif hér og nú á fyrirtækin í landinu, almenning, heimilin — við þurfum að bregðast hraðar við en við höfum gert. Það skiptir því máli að þingið taki sjálft sig til skoðunar, hvernig það kemur fram í þessu máli og hvað við getum gert hér og nú til að bregðast við. Ekki bara til framtíðar með lagasetningu sem tekur ákveðinn tíma — því að vissulega er það hlutverk okkar að endurskoða lögin, fara yfir þau, bæta lagarammann — heldur líka með því að horfa á þær aðgerðir sem verið er að grípa til og þau lög sem þarf að setja strax.