136. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2008.

Störf þingsins.

[13:45]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við setjum lög um eftirlitsstofnanir og reynum að gera þær eins sjálfstæðar og hægt er. Þær eiga að vera óháðar löggjafarvaldinu og framkvæmdarvaldinu, bæði Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn og aðrar stofnanir sem taka ákvarðanir og framfylgja þeim lögum sem við setjum. Vandinn er sá að þegar Seðlabankinn t.d. ákveður stýrivexti 18%, þá gerir hann það og hann er óháður.

Ég get í sjálfu sér ekki sagt honum fyrir verkum eða þingið nema þá að breyta lögum um Seðlabanka. Ég er hjartanlega ósammála því að Seðlabankinn hækki stýrivexti í þessari stöðu, ég held að það hafi akkúrat engin áhrif. Ég held að hækkun stýrivaxta hemji ekki flutning á fjármagni til útlanda og hækkun stýrivaxta hvorki eykur sparnað né minnkar hann eins og tilgangurinn ætti að vera. Ef ég fengi að ráða ættu stýrivextir ekki að lækka heldur ættu að koma nýir stýrivextir 6%, ég hef nefnt það. En Seðlabankinn ræður þessu og við höfum sett lög sem gera hann sjálfstæðan einmitt til að ráða því. (Gripið fram í.)

Þetta munum við ræða í hv. efnahags- og skattanefnd á föstudaginn þar sem við ætlum að ræða sérstaklega um stýrivexti og áhrif þeirra og fá rökstuðning fyrir því af hverju stýrivextirnir eru 18%. En það er margt fleira sem við setjum lög um og það er rétt hjá hv. þingmanni að það hefur ekki verið hefð fyrir því á Alþingi að þingmenn komi með sérstakt frumkvæði og það er mjög lítið um að þingmannafrumvörp séu samþykkt. Reyndar eru frumvörp þingnefnda oft samþykkt og kannski væri það leiðin að þingnefndir yrðu virkari í því að semja lög sem menn eru sammála um að þurfi til að breyta lagarammanum um þjóðfélagið.