136. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2008.

umræða um ESB -- hlutverk þingsins í efnahagsaðgerðum -- fundir fastanefnda.

[14:00]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er gott að þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru búnir að uppgötva þingræðið og ætli þeim sé það mál nú ekki skylt eftir 17 ára samfellda setu í meiri hluta á Alþingi og hafandi átt forseta Alþingis allan þann tíma? Það er sömuleiðis gott að þingmenn Sjálfstæðisflokksins átta sig á því að ástandið er alvarlegt. Við höfum aldrei séð það jafnsvart, sagði hv. þm. Guðfinna Bjarnadóttir sömuleiðis, eftir það sem vonandi verður nú lokakaflinn á 17 ára ráðsmennsku Sjálfstæðisflokksins í landsmálum.

Ég vil þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir að taka hér upp undir liðnum Störf þingsins, efni sem loksins er um störf þingsins því flest annað er yfirleitt rætt undir þeim lið. Hún ræddi hlutverk Alþingis og aðkomu að þeim viðfangsefnum sem við er að glíma í þjóðmálum okkar núna.

Hv. þm. Pétur Blöndal fór með skilgreiningu á hlutverki Alþingis, ég vil leyfa mér að bæta þar örlítið við. Fyrir utan það að fara með almennt lagasetningarvald, fjárlaga- og fjárstjórnarvald, (Gripið fram í.) að veita framkvæmdarvaldinu — sem vel að merkja sækir umboð sitt til Alþingis — aðhald, er Alþingi að sjálfsögðu einnig stefnumótunarvettvangur og einn helsti vettvangur pólitískrar umræðu í landinu og því ber ekki að gleyma.

Það hefur verið dapurlegt að sjá Alþingi standa á hliðarlínunni allan októbermánuð en það er ekkert annað en áframhald á niðurlægingu Alþingis vegna ofríkis valdstjórnarmanna undanfarin ár sem hafa með framkvæmdarvaldinu valtað yfir löggjafarsamkomuna. En það er enn þá aumara að Alþingi skuli gera það, horfandi upp á handónýtt framkvæmdarvald, ráðlausa ríkisstjórn, það er dapurt. Og er það ekki dapurt fyrir þingmenn á Alþingi Íslendinga að fá fréttir frá Úkraínu, um hvað? Um að ríkisstjórn Úkraínu er að ræða við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um aðstoð, en hvað gerir þingið á meðan? Þingið fjallar fyrir opnum tjöldum um skilmálana sjálfstætt og tekur afstöðu til þess hvort úkraínska þingið fellst á þá eða ekki. (Forseti hringir.) Hvað er Alþingi Íslendinga að gera í sömu sporum á sömu dögum? Ekki neitt. Og á því ber meiri hlutinn og umfram alla aðra Sjálfstæðisflokkurinn ábyrgð.